Á morgun lýkur atkvæðagreiðslu vegna verkfallsboðana VR hjá bæði hópbifreiðafyrirtækjum og ýmsum hótelum sem starfa á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Fyrsta verkfallið er boðað þann 22. mars. Atkvæðagreiðsla hófst þann 5. mars. Aðeins þau sem verkföllin ná til eru á kjörskrá. Að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, eru það um þúsund manns. Um 57 prósent hafa kosið eins og staðan er núna.

„Það er alltaf töluvert meiri þátttaka til að byrja með og svo kemur meira undir það síðasta. Við erum í skýjunum með þátttökuna. Við erum komin í um 57 prósent kosningaþátttöku. Ég held að það sé met hjá okkur,“ segir Ragnar Þór í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir að hans tilfinning sé sú að verkföllin verði samþykkt.

„Mín tilfinning er sú að þátttakan er góð og það er eflaust til marks um það að fólk er að vakna og er meðvitaðra um það sem við erum að gera í verkalýðshreyfingunni. Við fylgjum niðurstöðunni, sama hver hún verður, en mín tilfinning er sú að aðgerðirnar verði samþykktar,“ segir Ragnar Þór.  

Vísar ábyrgð á SA

Heldurðu að það komi verkfalla? Er engin lausn í sjónmáli?

„Ég neita að trúa því að okkar viðsemjendur hleypi þessu í þennan farveg sem við erum búin að búa til. Ég leyfi mér að trúa því að við náum saman áður en það gerist. Því miður þurfti þetta til. Þetta þurfti árið 2015 þegar aðgerðir voru samþykktar í allsherjaratkvæðagreiðslu þá, en ég leyfi mér að vona að enn þá að okkar viðsemjendur fari að koma að borðinu. Þeir hafa setið við borðið og starað út í loftið fram að þessu. Við erum með tilboð í höndunum sem nær ekki einu sinni til þess svigrúm sem Seðlabankinn hefur gefið út að hagkerfið þoli í hækkunum. Þegar við erum ekki einu sinni komin á þann stað að okkar viðsemjendur séu tilbúnir að fara í það sem að helstu greiningaaðilar telji að hagkerfið þoli, þá er ekki annað hægt en að vísa alfarið ábyrgð á þeirri stöðu sem er komin upp á Samtök atvinnulífsins,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir að hann vonist til þess að ekki komi til átaka og að samningar náist sem fyrst.

„Fyrst og fremst er markmiðið að klára samninga og gera það án átaka, það er og hefur alltaf verið okkar markmið,“ segir Ragnar Þór að lokum.

Eins og fyrr segir er fyrsta verkfall, verði þau samþykkt, áætlað þann 22. mars. Hér að neðan má sjá verkfallsáætlun VR sem kosið er um í atkvæðagreiðslunni:

Frá klukkan 00:01 til klukkan 23:59 þann 22. mars 2019 (1 dagur)  
Frá klukkan 00:01 þann 28. mars 2019 til klukkan 23:59 þann 29. mars 2019 (2 dagar)
Frá klukkan 00:01 þann 3. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 5. apríl 2019 (3 dagar)
Frá klukkan 00:01 þann 9. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 11. apríl 2019 (3 dagar)
Frá klukkan 00:01 þann 15. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 17. apríl 2019 (3 dagar)
Frá klukkan 00:01 þann 23. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 25. apríl 2019 (3 dagar)
Ótímabundin vinnustöðvun frá klukkan 00:01 þann 1. maí 2019.