Mikið samband milli ofbeldis, áfalla og fíknar. Fjöldi þolenda reynir sjálfsvíg. Bæta þarf í meðferðarstarf í fangelsum.


Stígamót hafa þjónustað yfir 10.000 einstaklinga frá því að samtökin tóku til starfa, langmest konur. Í fyrra var metár hvað varðar fjölda brotaþola, að sögn verkefnisstjóra sem flutti erindi á málstefnu SÁÁ í vikunni. Um 200 manns eru nú á biðlista hjá Stígamótum.

Eygló Árnadóttir, verkefnisstýra fræðslu og forvarna hjá Stígamótum, rakti á málstefnunni að baráttan gegn kynferðisofbeldi væri í fullum gír. Algengustu brotin á skjólstæðingum væru nauðgun og sifjaspell væri í öðru sæti. 79,8 prósent þolenda kæra ekki ofbeldð til lögreglu af ýmsum ástæðum.

Fram kom að algengar afleiðingar sem brotaþolar burðast með jafnvel áratugum saman eru kvíði, skömm, sektarkennd, brotin sjálfsmynd.

„Þriðjungur okkar fólks hefur reynt að svipta sig lífi,“ sagði Eygló.

32,7 prósent nota áfengi sem flótta vegna afleiðinga ofbeldis. 70 prósent þolenda eru að reyna að vinna úr ofbeldi sem þau urðu fyrir 17 ára og yngr,i sem er til marks um hve brot gegn börnum eru algeng hér á landi.

Í flestum tilvikum fengu börnin sem brotið var á enga aðstoð. Oft var farið gegnum barnavernd en sjaldnast rætt um kynferðisofbeldi, að sögn Eyglóar. Afleiðingar verða ýktari eftir því sem lengur líður án meðhöndlunar. "Því yngra sem fólk er við fyrsta kynferðisbrot, því alvarlegri verða afleiðingarnar,“ sagði Eygló.

Tengsl áfalla og fíknisjúkdóma voru eitt af leiðandi stefum á málstefnunni. Kom fram sú ósk að í meðferðarstarfi hjá SÁÁ yrði í auknum mæli hugað að ábyrgð gerenda.

Rætt var að takmörkuð meðferðarúrræði stæðu til boða fyrir fanga á Íslandi. Aðeins er boðið upp á meðferðargang í einu fangelsi, fyrir karla á Litla-Hrauni. Engar konur í afplánun eiga þess kost að vera í virkri meðferð á vegum hins opinbera.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, gagnrýndi skort á stuðningi við meðferðarúrræði í fangelsum. Taldi hann að refsiharka einkenndi hugmyndfræði gagnvart föngum með fíkn, ólíkt áherslum á Norðurlöndunum.

Hjá sálfræðingi á vegum Fangelsismálastofnunar kom fram að það væri til vansa að geta ekki boðið upp á aðstöðu til að afeitra fólk.

Megintilgangur málstefnunnar fólst í viðleitni til að auka samstarf þess fjölda ólíkra stofnana og samtaka sem starfa að málum sem tengjast fíknisjúkdómum.

Fram kom hjá Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni SÁÁ, að margt gott hefði áunnist í merðferðarstarfi en aldrei mætti sofa á verðinum. Það sem vekur einna mestar áhyggjur undanfarið, að sögn Valgerðar, er hátt hlutfall notenda ópíóða og tíð dauðsföll. Aldrei hafa fleiri í meðferð á Vogi verið án atvinnu en nú, um 70 prósent.