„Þetta verður erfitt en við munum samt gera allt hvað við getum til að halda uppi gæðunum. Við munum fara í samtal við stjórnvöld um hvernig hægt sé að styðja við starfið svo þetta verði ekki allt of mikið álag á starfsfólk skólans og við getum veitt nemendum sem besta þjónustu,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Skólanum barst metfjöldi umsókna í grunnnám en umsóknarfrestur rann út í fyrradag. Alls bárust 6.720 umsóknir sem er tæplega 21 prósents aukning frá síðasta ári. Umsóknum fjölgaði um 13 prósent milli áranna 2018 og 2019 en þar hafði stytting framhaldsskólans mikil áhrif.

Umsóknir í framhaldsnám eru tæplega fimm þúsund og heildarfjöldi umsókna því vel á tólfta þúsund. Jón Atli segir að skólinn hafi búist við töluverðri fjölgun umsókna vegna kórónaveirufaraldursins, en fjöldinn reynist enn meiri.

Af einstökum sviðum bárust flestar umsóknir í grunnnám á heilbrigðisvísindasviði eða um 2.100. Þá voru þær rúmlega 1.350 á félagsvísindasviði, um 1.260 á hugvísindasviði, rétt rúmlega eitt þúsund á verkfræði- og náttúruvísindasviði og 980 á menntavísindasviði.

Jón Atli segir að aukning umsókna dreifist talsvert yfir deildir skólans. Til að mynda hafi umsóknir í laganám tvöfaldast, en hluta þess megi rekja til þess að frá og með þessu ári verði hætt að nýta svokallað A-próf til að velja inn nemendur.

f16290618-jón-atli-b-0.jpg

Jón Atli Benediktsson

„Síðan er mjög mikil aukning í hjúkrunarfræði og kennaranám, en í þeim tilfellum eru sérstök átaksverkefni í gangi. Svo sjáum við töluverða aukningu í tækninámi eins og verkfræði, tölvunarfræði og þess háttar,“ segir Jón Atli.

Nemendafjöldi HÍ er í dag um 13.300 en brautskráning fer fram laugardaginn 27. júní næstkomandi. Jón Atli segir erfitt að segja til um á þessu stigi hver nemendafjöldi við skólann verði næsta haust, en hann býst við metfjölda. Ekki liggur endanlega fyrir hversu margir verða brautskráðir nú, en í júní á síðasta ári var fjöldinn um tvö þúsund.

„Við erum ekki með skýrt mat enn þá, en síðustu ár höfum við miðað við að um 60 prósent þeirra grunnnema sem sækja um, komi til okkar. Það hlutfall gæti orðið hærra nú vegna ástandsins í samfélaginu.“

Nemendum í skólanum fjölgaði töluvert í kjölfar efnahagshrunsins 2008, en hvernig metur Jón Atli stöðuna nú í þeim samanburði?

„Þá var staðan auðvitað mjög erfið og nemendum fjölgaði verulega en því fylgdi ekki aukið fjármagn. Við höfum verið að sjá auknar fjárveitingar til háskólastigsins undanfarin ár, sem er mjög jákvætt. En þessi fjölgun fer auðvitað út fyrir öll þau mörk svo það þarf að skoða þetta sérstaklega til að tryggja að við getum sinnt þessu verkefni mjög vel.“

Jón Atli segir að svo gæti farið að upp komi skortur á húsnæði næsta haust. „Við teljum að við getum leyst þetta, en þegar reynt hefur á höfum við leigt húsnæði. En það er eiginlega of snemmt að segja til um það.“

Einnig þurfi að hafa í huga að við séum enn stödd í miðjum faraldri þótt áhrifin fari dvínandi. „Við þurfum að hafa tveggja metra regluna í huga í haust fyrir þá nemendur sem það kjósa, nema eitthvað hafi breyst. Það gerir líka auknar kröfur á húsnæði okkar sem við höfum metið upp á jafnvel 15 prósent til að kennslan passi inn í húsnæðið.“