Veðurstofan metur það nú hvort vara eigi sérstaklega við asahlákunni sem er spáð næsta föstudag. Samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar á að vera allt að níu stiga hiti og mikil rigning. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins biðlar til húseigenda að hreinsa frá niðurföllum svo að vatn eigi greiða leið þangað.

„Slík hreinsun getur bjargað því að vatn flæði inn í hús,“ segir í tilkynningu frá slökkviliðinu.

Í samtali við Fréttablaðið segir veðurfræðingur Veðurstofunnar að á morgun verði tekin ákvörðun frá þeim um það hvort vara eigi sérstaklega við veðrinu en búast má við rigningu, mismikilli þó, á öllu landinu.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur varar við asahláku á síðu sinni blika.is en hann segir að sá fleygur af hlýju lofti sem er spáð að fari yfir landið á föstudag falli undir þá skilgreiningu.