Verið er að meta hvort hægt verði að hleypa hluta íbúa Seyðisfjarðar sem búa á öruggum svæðum Enn er óvissustig vegna skriðuhættu á Austurlandi, neyðarstig á Seyðisfirði og rýming og hættustig á Eskifirði. Aðgerðastjórn, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Austurlandi funduðu í morgun um stöðu mála.

Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi kemur fram að þau hafi fundað með ofanflóðasérfræðingum Veðurstofu Íslands, aðgerðarstjórn, vettvangsstjórn og fulltrúum mikilvægra innviða og stofnana á Austurlandi.

Þar segir að skipulag heimfarar íbúa verði tilkynnt á milli 14 og 15 í dag, jafnvel fyrr.

„Það er verið að skoða það, sérstaklega með Seyðisfjörð og að ætti að skýrast þegar líður á daginn. Það er verið að skoða það sama um Eskifjörð en það þarf að framkvæma frekari mælingar þar,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Sérsveitin aðstoðar við að kanna aðstæður á Seyðisfirði.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vilja vera til þegar verðmætabjörgun má hefjast

Spurður um verðmætabjörgun á svæðinu segir Rögnvaldur að það sé verið að skipuleggja hana.

„Það þarf að skipuleggja hvernig verður staðið að henni og græja það sem þarf í það verkefni þannig þegar það kemur grænt ljós á það að það verði allt tilbúið,“ segir Rögnvaldur.

Hvernig fer það fram?

„Það þarf að átta sig á hvaða svæði eru örugg, eins og húsin, til að fara inn í. Hvort það sé hgæt að fara inn og ákveða og vera með skipulag fyrir þau verðmæti sem finnast. Hvert þau eiga að fara, hvaða húsum þau eru talin tilheyra. Svo þarf að þrífa þetta og vera með skipulag fyrir óskilamuni, sem ekki er vitað hvaðan koma og verja þá muni líka. Ef það er eitthvað sem hægt að bjarga með því að þrífa ogþurrka ef það er hægt,“ segir

Þannig það er mikið verk framundan, en samt enn hætta?

„Já, það er enn hætta fyrir hendi,“ segir Rögnvaldur.

Hann segir að þegar úrkoman hætti þá muni það hafa mikil áhrif og að ofanflóðasérfræðingar Veðurstofunnar vinni nú að því að meta þetta, með mælitækjum og yfirferð yfir svæðið. Sérsveit ríkislögreglustjóra sé með dróna að taka myndir af svæðinu þeim til aðstoðar.

Unnið er að frekari mælingum og athugunum á skriðusvæðum á Seyðisfirði. Einnig er unnið að mælingum á Oddskarðsvegi á Eskifirði og staðan endurmetin síðar í dag. Rýming stendur því enn. Gera má ráð fyrir að niðurstöður mælinga þar liggi fyrir um klukkan fimm í dag og standa þá vonir til að rýmingu megi aflétta að hluta eða öllu leyti.

Fólk hefur leitað í fjöldahjálparstöðvarnar eftir ýmsum stuðningi. Myndin er tekin á Egilsstöðum um helgina.
Fréttablaðið/Anton Brink

Kaffi og matur í boði

Fjöldahjálparstöðvar Rauða kross Íslands á Egilsstöðum og á Eskifirði verða opnar í dag og hægt að fá þar mat, kaffi og sálrænan stuðning.