Í dag lýkur hinsta lestra­á­taki Ævars Vísinda­manns, sem var haldið í fimmta og síðasta skipti í ár og hafa nem­endur og for­eldrar þeirra slegið met í lestri. Fyrri fjögur á­tökin gengu vel og voru yfir 230 þúsund bækur sam­tals lesnar í þeim en svo virðist sem á­takið í ár hafi verið gríðar­lega vin­sælt. 

„Ég er að telja núna, það er ekki komin loka­tala og við erum að slá met í ár. Mesta sem hefur verið talið á ári er í kringum 65.000 bækur og við erum búin að gjör­sam­lega sprengja þá tölu.“ 

Á undan­förnum vikum og mánuðum hafa nem­endur í grunn­skólum landsins, auk for­eldra þeirra, keppst við að lesa bækur og skila inn lestrar­miðum á skóla­bóka­söfnin sín. Fimm heppnir nem­endur og eitt for­eldri verða gerðir að per­sónum í ævin­týra­bók eftir Ævar Þór Bene­dikts­son sem kemur út í vor. Ævar Þór af­hjúpaði titilinn í sam­tali við Frétta­blaðið og mun bókin heita Bernsku­brek Ævars vísinda­manns: Ó­vænt Enda­lok. 

„Þetta átti bara að vera einu sinni, svo á­kvað ég að hafa þetta þrisvar því það gekk svo vel, svo á­kvað ég að hafa þetta fimm sinnum því þetta var að ganga svo rosa­lega vel.“ 

Ævar segist vilja hætta meðan á­takið er enn vin­sælt. „Mig langar að opna fyrir það að aðrir geta komið með enn þá skemmti­legri og nýrri leiðir til að kveikja á­huga barna og for­eldra á lestri.“ 

For­seti Ís­lands, herra Guðni Th. Jóhannes­son, og mennta- og menningar­mála­ráð­herra, Lilja Al­freðs­dóttir, munu draga nöfn fimm nem­enda og eins for­eldris úr lestrar­á­tak­spottinum við há­tíð­lega at­höfn í Borgar­bóka­safni Grófinni í dag.