Matvælavísitala Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, hækkaði um 12,7 prósent milli febrúar og mars og er þetta mesta hækkun milli mánaða í 14 ár.

Framboð af korni og jurtaolíum hefur dregist mjög saman vegna stríðsins í Úkraínu og telur Matvælastofnunin að þetta geti valdið miklu tjóni í fátækari löndum heims.

Í þróuðum hagkerfum fara um 17 prósent útgjalda neytenda til matarinnkaupa, en í þróunarríkjum er hlutfallið mun hærra. Til dæmis fara um 40 prósent útgjalda almennings í Afríku, sunnan Sahara, til matarinnkaupa.

Mestar hafa verðhækkanir verið á jurtaolíum, sem hækkuðu um 23,3 prósent milli mánaða og hafa hækkað um 56 prósent síðustu 12 mánuði, og korni sem hækkaði um 17,1 prósent milli mánaða og 37 prósent milli ára.

Síðustu 12 mánuði hefur matvælavísitalan hækkað um 34 prósent. Sérfræðingar Matvælastofnunarinnar óttast að frekari hækkanir séu í pípunum, á bilinu 8-22 prósent.

Þessi mikla hækkun matarverðs er í takti við verðkannanir Veritabus og ASÍ hér á landi undir síðustu mánaðamót, sem fjallað hefur verið um í Fréttablaðinu. Talið er að verðhækkanir á matvælum vegna stríðsins í Úkraínu séu ekki komnar inn í mælingar hér á landi og því geta miklar hækkanir verið í pípunum.