Skjálftavirkni er enn mikil á Reykjanesi en frá miðnætti og til klukkan sex í morgun mældust um 700 jarðskjálftar. Mesta virknin er bundin við Fagradalsfjall.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruvársérfræðingum Veðurstofu Íslands. Í gær mældust tæplega 2.800 jarðskjálftar en í heildina hafa rúmlega 22.000 skjálftar mælst síðan hrinan hófst.
Enginn órói hefur mælst en skjálftavirkni er áfram mikil sem fyrr segir.
Sex jarðskjálftar í nótt mældust 3,0 eða stærri. Sá stærsti varð klukkan rétt rúmlega fjögur í nótt og var hann 3,7 að stærð. Upptök hans voru við Fagradalsfjall á 5,6 kílómetra dýpi.