Fimm byggingar Háskóla Íslands hafa orðið fyrir tjóni eftir að kaldavatnslögn gaf sig í nótt með þeim afleiðingum að rúm tvö þúsund tonn af vatni flæddi inn í kjallara Háskóla Íslands. Mesta tjónið er í Gimli og í Háskólatorgi.
Þungt hljóð er í Jóni Atla Benediktssyni rektor eftir vatnslekann.
„Við erum að fara yfir þetta en við sjáum að það er tjón í fimm byggingum. Það er gríðarlegt vatnsjón í Gimli og byggingin er rafmagnslaus. Loftræstikerfið nánast fylltist af vatni og rafmagnstaflan er líklega ónýt,“ segir Jón Atli í samtali við Fréttablaðið.


Slökkvilið hefur verið að störfum frá því í nótt að dæla út vatni. Mikið vatn flæddi á fyrstu hæð í Háskólatorgi þar sem eru stórir fyrirlestrarsalir, aðstaða til rannsókna, kennslustofur, tölvuver og lesrými. Gangurinn milli Háskólatorgs og Veröld, hús Vigdísar, fór illa út og er verið að dæla þar út vatni.
Engar skemmdir urðu hins vegar hjá Árnastofnun þar sem handritasafn Árna Magnússonar er geymt. Handritasafnið er á varðveisluskrá UNESCO og er eitt mesta safn íslenskra menningarverðmæta. Þar eru geymd 1666 handrit en það síðasta var afhent íslensku þjóðinni frá Danmörku árið 1997. Þó eru enn handrit úr safni Árna geymd í Danmörku. Auk þess má finna þar 1345 íslensk fornbréf í frumriti og tæplega sex þúsund fornbréfauppskriftir.
„Verðmætu bækurnar og skjölin í Árnagarði virðast ekki hafa farið illa út,“ segir rektor. Verið er að kanna geymslurnar í aðalbyggingu HÍ en þar virðist ekki hafa verið mikið tjón þó að vatn hafi lekið þar inn. Einnig er verið að kanna fyrstu hæðina á Lögbergi.
Sömuleiðis sluppu Stúdentagarðar algjörlega við vatnslekann. Skrifstofa Félagsstofnun stúdenta staðfestir í samtali við Fréttablaðið að ekkert vatn hafi komist inn í Gamla garð.

„Þetta er alveg hræðilegt en við vonum hið besta. Þetta hefur áhrif á kennsluna og við leitum lausna. Það var brugðist hratt við,“ segir Jón Atli.
Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, segir í samtali við RÚV að tjónið hlaupi sennilega á hundruðum milljóna.