Enn skelfur jörð við Vatnafjöll, austast í Suðurlandsbrotabeltinu. Fjórir jarðskjálftar voru yfir þrír að stærð í dag samkvæmt Veðurstofu Íslands, sá stærsti var klukkan 13:21 og var hann 3,8 að stærð.

„Við fengum tilkynningar frá Hellu og Hvolsvelli milli hálftólf og hálftvö,“ segir vakthafandi jarðfræðingur í samtali við Fréttablaðið.

„Það hefur verið mikil virkni við Vatnafjöll í nóvember frá 11. nóvember.“

GPS mælar sýna engin merki um landris og telja náttúruvásérfræðingar skjálftana ekki tengjast eldsumbrotum.

Mynd: Veðurstofa Íslands

Snarpur jarðskjálfti að stærð 5,2 fannst, einnig klukkan 13.21, þann 11. nóvember á höfuðborgarsvæðinu og á öllu Suðurlandi. Upptök hans voru í Vatnafjöllum um 7,5 kílómetra suður af Heklu á Suðurlandsbrotabeltinu sem er eitt virkasta skjálftasvæði landsins.

Um þúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu frá aldamótum en mesta virknin hefur verið í ár. Flestir skjálftarnir eru á átta kílómetra dýpi.