Björgunar­sveitir um allt land hafa haft í nógu að snúast nú síð­degis vegna veðursins en Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að verk­efnin og fjöldi þeirra hafi enn sem komið er verið við­ráðan­leg.

Mest mæðir á björgunar­sveitum fyrir norðan, enda veðrið þar verst um þessar mundir og rauð veður­við­vörun verið í gildi síðan klukkan 16:00 á Norður­landi vestra, Ströndum og Norður­landi eystra. Björgunar­sveitir hafa farið í um 200 út­köll það sem af er deginum.

„Núna upp úr fimm voru hátt í fimm hundruð björgunar­sveitar­menn búnir að vera á vaktinni í tæp­lega tvö hundruð verk­efnum og það virðist hafa mætt mest á Norður­landinu og þá sér­stak­lega Trölla­skaganum og Eyja­firðinum,“ segir Davíð. Hann segir til­kynningarnar einnig hafa aukist á Suður­nesjum.

„Að öðru leyti eru helstu verk­efni fok á lausa­munum og þakk­læðningum og dá­góður slatti af verk­efnum hafa falist í því að að­stoða heil­brigðis­starfs­fólk, við að ferja sjúk­linga á milli staða og starfs­fólk til og frá,“ segir Davíð. Hann segir að mikið hafi verið um raf­magns­leysi á Norður­landi.

Þannig hefur veðrið haft á­hrif á raf­magns­flutning á Norður­landi og sunnan­verðum Vest­fjörðum. Sauð­ár­krókur hefur verið raf­magns­laus en Ra­rik vinnur nú að því að koma vara­afli á í bænum. Þá varð raf­magns­laust á Húsa­vík um stund og fær Raufar­höfn raf­magn frá vara­afls­stöð og var síðari hluta dagsins í dag eytt í að setja upp var­afl upp á Kópa­skeri og Þórs­höfn, að því er fram kemur á vef RÚV.

„Þetta er vel við­ráðan­legt hingað til, á höfuð­borgar­svæðinu hefur þetta verið ró­legra en annars staðar, en að öðru leyti hefur þetta gengið bara þokka­lega,“ segir Davíð.

Rauði kross Íslands hefur opnað fjöldahjálparstöðvar í Klébergsskóla á Kjalarnesi þar sem ferðalangar sitja fastir vegna lokanna, einnig á Selfossi og í Borg í Grímsnesi, en einhver fjöldi fólks er fastur þar og kemst ekki til Selfoss.