Það er ýmis­legt sem rataði í fjöl­miðla á árinu og hér á eftir fylgja tíu mest lesnu fréttirnar á vef Frétta­blaðsins. Listinn fangar nokkuð vel þau stóru frétta­mál sem frétta­stofan fylgdi á árinu sem er að líða en á honum eru fréttir sem tengjast heims­far­aldrinum, veikindi kvenna, John Snorra sem fórst á árinu og svo fréttir um þekkta karl­menn sem hafa verið sakaðir um of­beldi.

Hér að neðan má sjá tíu mest lesnu fréttirnar í öfugri röð og númer eitt sú sem mest var lesin.

10.

Tíunda mest lesna fréttin er frétt um hvar þarf að nota grímur en hún var skrifuð í júlí þegar grímu­skyldan tók aftur gildi eftir að smitum fór fjölgandi á ný.

9.

Níunda mest lesna fréttin fjallar um lands­liðs­manninn Ragnar Sigurðs­son en lög­regla var kölluð til að heimili hans í júlí árið 2016 vegna heimilis­of­beldis sem þeim hafði verið til­kynnt um. Fjallað var um mál Ragnars auk annarra lands­liðs­manna á vef Frétta­blaðsins á árinu.

8.

Áttunda mest lesna fréttin var frá­sögn Láru Guð­rúnar Jóhanns­dóttur um það hversu erfið­lega henni gekk að fá greiningu á veikindum sínum en eftir mikla þrauta­göngu var hún greind með sykur­sýki 1.

7.

Sjöunda mest lesna fréttin fjallar um líkamræktar­hjól for­seta Banda­ríkjanna, Joe Biden, en hann fékk ekki að taka það með sér í Hvíta húsið þegar hann tók við em­bætti af öryggis­á­stæðum.

6.

Sjötta mest lesna fréttin var birt þann 20. mars, daginn eftir að eld­gos hófst í Geldinga­dölum, en þá höfðu þeir Gunnar Árna­son og fé­lagar farið að gosinu um nóttina og birtu af því myndir. Á þeim tíma var að sjálf­sögðu mikil eftir­spurn eftir myndum af gosinu og vin­sældir fréttarinnar eftir því.

5.

Fimmta mest lesna fréttin fjallar um bólu­efni AstraZene­ca og sjúk­dóm sem fólk þróaði með sér í kjöl­far þess að fá bólu­efnið en fjöldi fólks fékk blóð­tappa í kjöl­far þess. Um tíma var notkun þess hætt hér á Ís­landi en síðar notkunin hafin aftur og þá með ein­hverjum tak­mörkunum. Um 60 þúsund ein­staklingar voru bólu­settir með AstraZene­ca á Ís­landi.

4.

Fjórða mest lesna fréttin var á­bending frá lög­reglunni á Suður­nesjum um að dreifa ekki myndum af slysstað eftir að ekið var á tvo gan­gangi veg­far­endur í janúar.

3.

Þriðja mest lesna fréttin var sú að tvær konur hafi kært Sölva Tryggva­son fyrir meint of­beldi af hans hálfu, önnur fyrir líkams­á­rás og hin fyrir kyn­ferðis­of­beldi.

2.

Þá er önnur mest lesna fréttin frekar ný­leg en þar var rætt við Margréti Frið­riks­dóttur, fjöl­miðla­konu, en henni var vísað út úr verslun H&M fyrir að vera ekki með grímu þann 19. desember.

1.

Mest lesna fréttin var byggð á frá­sögn fjall­göngu­mannsins Antonio Sykaris þar sem hann lýsti ó­reiðunni sem göngu­menn mættu í þriðju búðum á K2 nokkrum klukku­stundum áður en þeir John Snorri, Ali Sadpara og Juan Pablos Mohrs týndust. Það var í febrúar á þessu ári. Út­för John Snorra fór fram í júní á þessu ári í Vída­líns­kirkju.

„John Snorri er í huga og hjarta okkar alla daga,“ sagði ekkja hans, Lína Móey, þegar hún til­kynnti um út­förina.

Það var svo ekki fyrr en 26. júlí júlí sem að lík John Snorra og þeirra Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr fundust á K2. Það var göngumaðurinn Valentyn Sypavin sem fann þá en hann birti frásögn sína af líkfundinum í ágúst.

Sypavin kom auga á þá fyrir ofan hinn svokallaða Flöskuháls, sem er um 400 metra frá tindinum. Sypavin telur ótvírætt að þeir hafi verið á niðurleið.