Suður-Kórea hefur hert mjög ráðstafanir til að takmarka útbreiðslu kórónaveirunnar COVID-19, eftir að staðfestum tilfellum sýktra hefur fjölgað hratt annan daginn í röð. Landið glímir nú við mesta fjölgun á greindum tilfellum utan Kína.

Chung Sye-kyun, forsætisráðherra Suður-Kóreu, sagði í gær neyðarástand vera í landinu. Alls er búið að staðfesta rúmlega 200 veirutilfelli og þar af hundrað á einum degi. Tilfellum kann enn að fjölga. Í gær höfðu tveir látist af völdum veirunnar í Suður-Kóreu.

Stjórnvöld hafa lýst borgunum Daegu og Cheongdo sem svæðum undir „sérstöku eftirliti“. Daegu, með um 2,5 milljónir íbúa, er fjórða stærsta borg landsins. Stræti borgarinnar eru að mestu leyti auð eftir að borgarstjóri hvatti fólk að halda sig innandyra.

Í gær tilkynntu stjórnvöld að herstöðvar í landinu hefðu verið settar í sóttkví eftir að þrír hermenn höfðu greinst með veiruna.

Áætlað er að 85 af tilfellunum 100 séu tengd Shincheonji kirkjunni í Daeguborg. Alls hafa yfir 400 meðlimir þessa kristna sértrúarsöfnuðar sýnt einhver einkenni veirunnar, en ekki verið greindir.

Lee Man-hee, stofnandi Shinch­eonji kirkjunnar, hefur tekið sér hlutverk Jesú Krists og sagst ætla að taka 144 þúsund manns með sér til himna þegar dómsdag ber að höndum. Meðlimir kirkjunnar eru hins vegar yfir 200 þúsund og eru sagðir keppa um takmarkað pláss á himnum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi vegna hraðrar útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Talið er að hún hafi smitast í fólk á hrávörumarkaði í Wuhan-héraði í Kína í desember á síðasta ári.

Í gær höfðu um 2.300 manns látist af völdum veirunnar á heimsvísu og hafa yfir 76 þúsund tilfelli verið greind, langflest í Kína.