Lektor í lögreglufræðum óttast að ljósmynd sem sýni lögreglumann bera merkingar með tengingar við öfgahópa og kynþáttahyggju geti alið á ótta meðal minnihlutahópa og grafið undan trausti þeirra gagnvart lögreglu.

Mikilvægt sé að gæta þess að svipuð mál komi ekki upp aftur.

„Ég var mjög sorgmædd að sjá lögreglumann bera þessi merki en á hinn boginn var ég mjög ánægð með hvernig lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tjáði að hún ætlaði að taka á þessu,“ segir Eyrún Eyþórsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

Sjálf starfaði hún áður hjá sama lögregluembætti þar sem hún sinnti sérstaklega hatursglæpum og tengingu við minnihlutahópa.

Allir lögreglumenn eigi að líta eins út

Í kjölfar myndbirtingarinnar kölluðu yfirlögregluþjónn og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eftir því að öll merki yrðu fjarlægð af vestum lögreglumanna en umræddar merkingar eru ekki í samræmi við reglugerðir um merkingar á lögreglufatnaði. Þá hefur málið verið tilkynnt til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu.

„Ástæðan fyrir því að það eru sérreglur um lögreglubúninginn og að allir þeirra eigi að líta eins út er til að skapa traust og persónugera ekki einstaklinga innan lögreglunnar. Það á að vera hægt að ganga að lögreglumanni, hver sem hann er og hvaða skoðanir hann kann að hafa og treysta því að viðkomandi sinni sínu starfi,“ segir Eyrún.

Í ljósi þessa finnist henni óvenjulegt að merkjanotkun hafi almennt fengið að þrífast innan lögreglunnar.

Íslendingar átti oft sig ekki á alvarleika haturstjáningar

„Á hinn boginn má líka segja að það sé kannski undarlegt að setja á sig einhverja tjáningu ef maður veit ekki hvað hún merkir og það kannski sýnir ákveðið ábyrgðarleysi,“ bætir Eyrún við en lögreglukonan sem bar merkin umdeildu sagði í dag að það hafi komið sér í opna skjöldu að þau hafi verið túlkuð með neikvæðum hætti.

Ekki er ætlast til þess að lögreglumenn beri persónuleg einkenni á búningi sínum.
Fréttablaðið/Andri

„Ég held oft að Íslendingar átti sig ekki á alvarleikanum á svona haturstjáningu, ef það má flokka þetta sem slíkt. Þeir gera sér oft ekki grein fyrir afleiðingunum því við höfum kannski ekki haft háværrar raddir í samfélaginu af jarðarsettum minnihlutahópum sem hafa akkúrat bent á hvaða afleiðingar svona tjáning hefur á þá.“


Þá segir hún mikilvægt að lögreglan sé vel meðvituð um slíka hluti þar sem að hún verði að geta átt traust minnihlutahópa í samfélaginu.


Þess fyrir utan bendir Eyrún á að það geti varðað hegningarlög að bera tákn sem flokkist sem haturstjáning í opinberu rými.


Hefur ekki áhyggjur af rasisma innan lögreglunnar


Hún fagnar viðbrögðum lögreglunnar í málinu eins og áður segir en telur mikilvægt að reynt verði að koma fordæmingunni áleiðis til fólks í minnihlutahópum. Þannig sé hægt að lágmarka hættuna á því að málið dragi úr trausti þeirra gagnvart lögreglunni.


Burtséð frá þessu einstaka máli segist Eyrún ekki hafa sérstakar áhyggjur af rasisma innan lögreglunnar hér á landi.


„Auðvitað er lögreglan endurspeglun á einhverjum hluta samfélagsins og innanborðs geta auðvitað verið einstaklingar með neikvæð viðhorf. Það er kannski ekki hægt að koma í veg fyrir að slíkir einstaklingar séu innan lögreglunnar en þá þarf að vera ákveðinn ventill sem hamlar því að þessi viðhorf fái að þrífast og það sé þá tekið á þeim.“

Lögreglunemar gefi ástæðu til bjartsýni

Til að mynda séu dæmi um það í Þýskalandi og fleiri ríkjum að það geti verið brottrekstrarsök ef lögreglumaður sýni fordómafulla hegðun í starfi.

Eyrún segir að lögreglumenn líkt og aðrir geti verið með ómeðvituð neikvæð viðhorf gagnvart ákveðum hópum án þess að átta sig á því hvaða afleiðingar slíkt geti haft. Brýnt sé að kenna lögreglumönnum að þekkja að slík viðhorf geti farið út í starfshættina og birst í mismunun.

Í því samhengi bendir hún á að allir lögreglunemar þurfi nú að læra um samspil fjölbreytileika og löggæslu í lögreglunáminu.

„Ég hef upplifað það að nemendur mínir, sem eru mikið til ungt fólk, er mjög réttsýnt og mjög meðvitað um mannréttindi. Mér finnst mjög jákvætt að upplifa það.“