Fjöldi fólks var kominn saman í Safnahúsið til að verða vitni að undirritun samkomulags á milli Íslands og Grænlands um aukið samstarf landanna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, hóf ræðuhöldin og talaði til gesta á dönsku, grænlenskum gestum til mikillar gleði. Á eftir henni sagði Múte Bourup Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, nokkur orð og ritað var undir tímamótasamkomulag.

„Þetta er merkilegt skref í samstarfi Íslands og Grænlands, að formfesta þetta samstarf. Þarna er kveðið á um nokkur svið, þar sem ætlunin er að ná ákveðnum árangri. Í yfirlýsingunni er meðal annars formfest samstarf í rannsóknum, háskólastarfi, menningarsenu, jafnrétti kynjanna. Síðan viljum við reyna að leggja grunninn að fríverslunarsamningi milli Íslands og Grænlands,“ segir Katrín, sem telur það merkilegt að formleg samskipti milli landanna hafi hingað til ekki verið sérstaklega mikil.

„Þá höfum við skynjað mikinn áhuga hjá íslenskum fyrirtækjum á að efla starfsemi sína á Grænlandi, ég held að það séu mikil tækifæri í því,“ segir Katrín. Múte Bourup Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, tekur í sama streng, en hann segir að um sé að ræða sögulegan dag í samstarfi og vináttu á milli landanna.

„Á tímum sem þessum, þegar það er stríð í Evrópu, þá tel ég að það sé mikilvægt að samhuga lönd, sem hafa lýðræði og frelsi í gildum sínum, vinni saman á diplómatískan hátt með samkomulagi líkt og þessu. Þannig styrkjum við samfélögin okkar,“ segir Múte.

Að sögn Katrínar var það Múte sem átti upphaflegu hugmyndina að samstarfinu. „Þetta tengist því að ég heimsótti Grænland í vor og var þá fyrsti íslenski forsætisráðherrann sem heimsótti nágranna okkar í norðri í 25 ár. Þar fékk Múte þessa hugmynd, að við myndum reyna að formfesta samstarfið með einhverjum hætti og þá settum við af stað þessa vinnu. Núna er hann hingað kominn til að formfesta samstarfið og setja ráðstefnu Hringborðs Norðurslóða, sem er á sama tíma,“ segir Katrín, en þessa dagana stendur yfir hin árlega ráðstefna Arctic Circle, eða Hringborðs Norðurslóða, hér á landi.

Múte, sem kom til landsins í gær, var spenntur fyrir heimsókninni, en merkilegast þykir honum veðurfarið á Íslandi.

„Ég held að venjulega á Íslandi upplifið þið sól og rigningu á sama degi. Ég hlakka til þegar það byrjar að rigna seinna í dag,“ sagði Múte.