Klara Ósk Elíasdóttir, tónlistarkona, bjó í ellefu ár í Los Angeles en er nú flutt til Íslands. Hún býr með kærastanum sínum, Jeremy Aclipen, og segist aldrei hafa verið jafn hamingjusöm.

„Lánið í óláninu við Covid er klárlega það að tónlistarbransinn varð að redda sér. Og með nýrri tækni get ég verið hér en enn þá unnið mörg verkefni í Bandaríkjunum,“ segir Klara. „Ég væri örugglega ekki á Íslandi ef það væri ekki fyrir Covid og þá hefði ég kannski ekki hitt Jeremy,“ segir Klara.

„Ég hef aldrei verið hamingjusamari og það er merkilegt að fá að upplifa það á hverjum degi að vera ástfanginn og að sambandinu fylgi enginn kvíði,“ útskýrir hún. „Ég hef verið samböndum og aðstæðum þar sem það ríkir mikil óreiða, ófriður og spenna og það skapar svo mikla ringulreið. Það er svo gott að upplifa þennan frið, öryggi og það að vera elskaður alltaf,“ segir Klara sem ljómar þegar hún talar um ástina og Jeremy.

Klara segist vita að hún væri ekki eins hamingjusöm og hún er í dag ef hún hefði ekki farið þá löngu leið sem hún fór með Nylon, The Charlies, stóra plötufyrirtækinu og árunum í Bandaríkjunum. „Á þessari leið fann ég hvað það er sem gerir mig hamingjusama og að hamingjan er ekki „one size fits all“,“ segir Klara.

„Fyrir mig er hún innri friður og að fá að vera í kringum fjölskylduna mína, fá að gera tónlist og flytja tónlist. Og í þessu ferli eignaðist ég líka aðra fjölskyldu, Steinunni og Ölmu, það er einhver tenging okkar á milli sem ég hef hvergi fundið fyrr eða síðar og ég bý að henni alltaf.“