„Mannréttindadómstóll Evrópu hefur slegið skjaldborg um dómsvaldið með þessum tímamótadómi. Ekki bara á Íslandi heldur í gjörvallri Evrópu,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður um staðfestingu yfirdeildar MDE á fyrri dómi réttarins í Landsréttarmálinu svokallaða í gær.

Vilhjálmur, sem er lögmaður kæranda málsins, segir að sér hafi þótt nauðsynlegt, í ljósi þess hvernig staðið hafi verið að skipun dómara í Landsrétt, að bera það verklag undir MDE. „Niðurstaðan eftir þessa tæplega þriggja ára baráttu er afgerandi, sem er ánægjuleg fyrir umbjóðanda minn. Dómararnir sautján voru einróma um niðurstöðuna sem er gott fyrir Ísland og Evrópu,“ segir hann.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélagsins, segir alla valdhafa stjórnskipunarinnar sæta gagnrýni í hinum nýja dómi. „Ein áhugaverðasta gagnrýnin fyrir dómstólana er að MDE er í raun að gefa merki um að dómstólar eigi að ganga lengra í endurskoðun sinni þegar um er að ræða mannréttindi,“ segir Kjartan Bjarni og vísar til gagnrýni dómsins á þá áherslu sem Hæstiréttur hafi lagt á réttarvissu og stöðugleika á kostnað þess réttaröryggis sem fólgið er í sjálfstæði dómstólanna.

„Á hinn bóginn segir í lokaorðum dómsins að niðurstaðan hafi ekki áhrif á þau mál sem þegar eru dæmd þannig að það má segja að þetta sé dómur sem horfi fyrst og fremst til framtíðar í stað þess að umbylta öllu því sem þegar er orðið,“ segir Kjartan Bjarni.