Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sást ganga ásamt fylgdarliði sínu upp Laugaveginn rétt eftir klukkan 17 í dag. Hún er nýlent á landinu og er stödd hér til að taka þátt á samráðsfundi forsætisráðherra Norðurlandanna sem haldinn verður á morgun.

Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar, birti sjálfu af sér á Facebook fyrir skemmstu en í bakgrunni má sjá Merkel sem starir beint í myndavélina. Að sögn Ásdísar var stemningin afslöppuð í kringum kanslarann. Hún gekk ásamt fylgdarliði sínu og lífvörðum í rólegheitunum upp Laugaveginn og var fólk ekkert að trufla hana.

Myndin sem Ásdís birti á Facebook af sér og kanslaranum. Hafi Ásdís ætlað vera lúmsk við myndatökuna má með sanni segja að það hafi mistekist; Merkel starir beint í myndavélina.

Vonar að lögreglufylgdir hafi lítil áhrif á umferðina

Mikill viðbúnaður er nú hjá lögreglu vegna þeirra erlendu embættismanna sem eru nú í heimsókn hér á landi. Forsætisráðherrar Norðurlandanna verða staddir hér á landi ásamt kanslara Þýskalands fram á miðvikudag en eins og fyrr segir munu þeir funda með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, á morgun.

Umferðadeild lögreglu aðstoðar nú sérsveitir ríkislögreglustjóra að sjá um að veita þessum erlendu gestum okkar viðeigandi fylgd næstu daga. Hópar blikkandi lögregluljósa og kolsvartra sérsveitarjeppa ættu því að verða á vegi margra íbúa höfuðborgarsvæðisins fram á miðvikudag með tilheyrandi truflun á umferð.

„Við reynum náttúrulega að vera með eins lítið inngrip í umferðina og við getum og í eins stuttan tíma og mögulegt er. En það finnst örugglega mörgum nóg um samt,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn umferðadeildar lögreglu.

Embættismönnunum er veitt viðeigandi fylgd samkvæmt alþjóðasamningum hvert sem þeir fara og má ætla að viðbúnaðurinn verði mestur í kringum ferðir Merkel. Fjölmennur hópur bíla frá sérsveitum ríkislögreglustjóra og lögreglunni keyrði um klukkan 17 í gegnum miðbæinn líklega í fylgd með kanslaranum.

„Stærstur hluti vakthafandi lögreglumanna hjá umferðardeild verður að vinna við þetta næstu daga, já,“ segir Ásgeir. Hann segir þá að nokkuð hafi verið um komu erlendra embættismanna til landsins nýlega og umferðardeildin fylgdunum því vön. „Það er alltaf skemmtilegt, og ég tala nú ekki um þegar það er svona gott veður, að vera að þvælast um út á mótorhjóli í svona verkefni,“ segir hann léttur í bragði að lokum.