Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lásu yfirlýsingar sínar fyrir blaðamenn í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum í kvöld. Merkel hefur alltaf langað til að heimsækja Ísland og þótti Þingvallaferðin sem hún fór í í kvöld afar áhugaverð og skemmtileg.

Þjóðarleiðtogarnir fóru saman ásamt þjóðgarðsverði um Þingvelli í kvöld þar sem Katrín og vörðurinn fræddu Merkel um ýmislegt tengt sögu staðarins. Að ferðinni lokinni mættu þær svo saman fyrir blaðamenn þar sem hvor fyrir sig las stutta yfirlýsingu. Merkel er hér gestur á árlegum sumarfundi ráðherra Norðurlandanna sem hefst á morgun.

Munu ræða þrjú stór mál

Katrín nefndi þrennt sem hún vildi sérstaklega ræða við Merkel: loftslagsmál, kynjajafnrétti og Evrópustjórnmálin. „Kanslarinn hefur verið einn helsti leiðtogi þar og vörður frjálslynds lýðræðis á meðan við horfum upp á ris popúlistahreyfinga,“ sagði Katrín í ræðu sinni. „Þetta er ein mikilvægasta spurningin fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum í Evrópu: hvernig getum við staðið vörð um okkar gildi? Þetta munum við ræða.“

Hún nefndi þá einnig fyrrum jökulinn Ok, sem varð fyrr á árinu fyrsti jökullinn til að tapa nafnbót sinni, en minningarathöfn um hann fór fram í gær. „Þið getið séð að allt sem vísindamenn hafa spáð fyrir um er nú að gerast. Þess vegna er svo mikilvægt að gera allt sem við getum til að afstýra þessari loftslagskrísu sem við erum að horfa upp á alls staðar í heiminum,“ hélt forsætisráðherrann áfram.

Katrín sagðist þá telja fundinn afar táknrænan fyrir hið góða samband Íslands og Þýskalands. „Við deilum sameiginlegri sögu og eigum langa og góða sögu saman,“ sagði hún. „Ég vona að við getum enn frekar styrkt samband ríkjanna og samband Norðurlanda við Þýskaland.“

Sat föst vegna Eyjafjallajökuls

Merkel tók þá í sama streng og Katrín og nefndi hin þrjú mikilvægu mál sem þær munu ræða yfir kvöldverðinum. Hún þakkaði kærlega fyrir Þingvallaferðina sem hún sagði afar merkilega. Táknrænt væri að vera stödd á flekaskilunum því hún vildi einmitt líka ræða samskipti milli Bandaríkjanna og Evrópuþjóðanna.

Hún sagði þá að hér á Íslandi væri hægt að sjá augljós merki þess að loftslagsmálin hefðu raunveruleg áhrif og sagði að maðurinn þyrfti að bera virðingu fyrir náttúrunni. Einnig rifjaði hún upp þegar hún sat föst í Bandaríkjunum vegna Eyjafjallajökulsgossins. Það hefði verið góð áminning um það hvað maðurinn mætti sín lítils gegn náttúrunni.

Þær Katrín og Merkel munu nú snæða saman kvöldverð í ráðherrabústaðnum og ræða hin mikilvægu mál sín á milli.