Angela Merkel, kanslari Þýska­lands, segir að Ev´ropa verði að rísa upp sam­einuð gagn­gvart keppi­nautum sínum á al­þjóða­vett­vangi og vísar hún þar sér­stak­lega til Kína, Rúss­lands og Banda­ríkjanna, að því er haft eftir henni á vef Guar­dian.

Vísar kanslarinn þar meðal annars til af­skipta Rússa af er­lendum kosningum, efna­hags­legum á­hrifum Kín­verja og gífur­legum á­hrifum Banda­ríkjanna á staf­rænum markaði. Hún segir að Evrópa verði að tala sam­einuðu máli á al­þjóða­vett­vangi svo álfan geti tekist á við þær á­skoranir sem völd þessara ríkja skapi.

„Það leikur enginn vafi á því að Evrópa þarf að finna sér nýjan stað í breyttum heimi. Gamla full­vissan í ver­öld eftir­stríðs­áranna er horfin á braut,“ segir kanslarinn meðal annars. Vísar hún meðal annars til á­takanna í Úkraínu sem dæmi um það þegar Evrópa hafi sam­einast um á­kveðna af­stöðu

„Þetta er tíminn þar sem við verðum að berjast fyrir grund­vallar­gildum okkar. Þjóðar­leið­togar verða að á­kveða hversu langt popúl­ismi má ganga eða hvort að við séum þegar á hólminn er komið reiðu­búin að takast á við sam­eigin­lega á­byrgð,“ segir Merkel.

„Að full­yrða að við höfum notið friðar í sjö ára­tugi vegna Evrópu­verk­efnisins er ekki lengur nóg til að rétt­læta það. Án þess að koma með fram­sæknar hug­myndir verður þetta verk­efni í meiri hættu en fólk gerir sér grein fyrir,“ segir Merkel og ræðir þar um Evrópu­sam­starfið.