Eftir nokkuð langa bið hefur ofursportbíllinn Mercedes-AMG One verið frumsýndur sem framleiðslubíll. Hann verður þó ekki ódýr en grunnverð hans verður frá 400 milljónum íslenskra króna. Það þarf ekki að koma á óvart þegar horft er á tæknina sem búið er að setja í þennan bíl en tvinnvélin kemur beint úr Formúlu 1 og skilar samtals 1.048 hestöflum.

Stýrið sleppur heldur ekki við formúlulíkindin eins og sjá má.

lda að um stóra V8-vél sé að ræða en vélin er aðeins 1,6 lítra V6-vél sem drífur afturhjólin gegnum sjö þrepa sjálfskiptingu. Vélin skilar samt 566 hestöflum þrátt fyrir litla stærð enda snýst hún upp í 11.000 snúninga. Hún er tengd við 8,4 kWst rafhlöðu sem er tengd fjórum rafmótorum. Tveir þeirra eru við framhjólin, einn við vélina og sá fjórði sér um að blása lofti inn á forþjöppuna. Upptakið er því aðeins 2,9 sekúndur og hámarkshraðinn 350 km á klst.

Ef þessi lýsing var ekki nóg til að fá tækninördinn til að slefa er hönnun yfirbyggingar og grindar ekki síðri. Um einrýmishönnun úr koltrefjum er að ræða og er vélin og gírkassinn hluti af grindarbyggingu bílsins. Yfirbyggingin er öll úr koltrefjum enda bíllinn aðeins 1.695 kíló. Fjöðrunin er með fimm arma fjölliðafjöðrun allan hringinn og vökvadempararnir eru að sjálfsögðu stillanlegir. Loftflæði bílsins breytist svo eftir akstri en hægt er að breyta loftflæði inn í brettum, opna eða þrengja loftdreifara og breyta halla vindskeiðar.