Hödd Vilhjálmsdóttir, almannatengill, kveðst ekki vera konan sem sendi Árna Pétri Jónssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, tölvupóst með ásökunum um að hafa farið yfir mörk sín.

Í upphafi febrúarmánaðar tilkynnti Árni Pétur að hann hefði látið af störfum sem forstjóri Skeljungs eftir að honum bárust ásakanir í tölvupósti þess eðlis að hann hafi farið yfir mörk fyrrum samstarfskonu sinnar fyrir 17 árum.

Í yfirlýsingu Árna Péturs kom fram að hann hafi beðið konuna afsökunar en tekur þó fram að hann telji sig ekki hafa gerst brotlegan við lög.

„Hún hefur tjáð mér að ekki sé verið að saka mig um ofbeldi, áreiti, brot gegn lögum eða neitt þess háttar heldur hafi verið um að ræða valdaójafnvægi og aldursmun,“ sagði Árni Pétur meðal annars í yfirlýsingu sinni.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að Hödd sé konan sem sendi Árna Pétri tölvupóstinn en hún hefur nú stigið fram til að leiðrétta þann misskilning.

Í Facebook-fæslu sinni segist Hödd ekki vera konan sem sendi umrætt bréf. Þá hafi hún ekki nokkra þörf eða ástæðu til að rita slíkt bréf til Árna Péturs. Hödd óskar jafnframt eftir því að fólk hætti að bendla nafn hennar við málið.

Færslu Haddar má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Ég hef heyrt því fleygt (mjög allt of leiðinlega oft) að það hafi verið ég sem hafi sent ónefndum forstjóra og fyrrum samstarfsfèlaga bréf í tengslum við gömul samskipti, sem leiddu til uppsagnar hans úr starfi. Ég vil taka það mjög skýrt fram að ég er ekki konan sem sendi umrætt bréf né hef ég nokkra þörf eða ástæðu til að rita slíkt bréf til viðkomandi. Mér þætti mjög vænt um ef hætt yrði að bendla mig við þetta mál þar sem að ég á alveg nóg með mín verkefni og vil síður né get ég staðið í því að heyja orrustur annarra.

Ást og friður,

Hödd.“