Litlar líkur eru á því að Alþingi nái samstöðu um breytingar á stjórnarskrá áður en kjörtímabilinu lýkur, miðað við þau viðhorf forystumanna flokkana sem komu fram í sérstakri umræðu um stjórnarskrárbreytingar á Alþingi í morgun.

Formenn flestra flokka tóku þátt í umræðunni og var hver höndin upp á móti annarri og lýsti forsætisráðherra sérstökum vonbrigðum með umræðuna í lok hennar.

Forætisráðherra gerði grein fyrir því í upphafi umræðunnar að frumvarp hennar um ný stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd og auðlindir, auk breytingar á II. kafla stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdarvald, verði líklega lagt fram á Alþingi í dag.

Katrín lagði áherslu á að það geti aldrei allir fengið allar sínar óskir uppfylltar þegar sjórnarskránni er breytt.

„Ég tel ekki að þetta verkefni snúist um að hver og einn hafi það ákvæði sem honum finnst fullkomið. Þá held ég að við myndum ekki ná fram neinum breytingum,“ sagði Katrín.

Birgir ánægður með verklag Katrínar

Umræðan í þinginu í morgun fór fram að frumkvæði Birgis Ármannssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem lýsti því viðhorfi sínu að sú vegferð sem stjórnarskrármálin hafa verið í á þessu kjörtímabili, það er að taka afmarkaða þætti hennar til skoðunar hverju sinni, sé farsælli en að umbylta stjórnarskránni í einu vetfangi.

„Hér er um að ræða grundvallarlög landsins sem öll önnur löggjöf byggir á og tilraunastarfsemi og einhver ævintýramennska í þeim efnum er auðvitað ekki af hinu góða,“ sagði Birgir meðal annars.

Ekki fögur áferð að leggja málið fram í ágreiningi

Formaður Miðflokksins lýsti áhyggjum af þeirri vegferð sem stjórnarskrárbreytingar eru á leiðinni í og þingið sé að leggja línur upp á nýtt um hvernig staðið verði að stjórnarskrárbreytingum.

Hann vísaði til þess að frumvarp er ekki lagt fram sameiginlega af forystumönnum stjórnarflokkanna heldur af forsætisráðherra einum.

Sigmundi var létt að ákvæði um fullveldið og framsal valdheimilda verður ekki lagt fram að sinni.
Fréttablaðið/Ernir

„Mér finnst ekki fögur áferð á því að stjórnarskrárbreytingar séu lagðar fram sem þingmannamál í ágreiningi, talsverðum ágreiningi eins og ég held að óhætt að segja eftir þessa fundi undanfarin misseri,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokkins.

Misheppnuð tilraun

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar lýsti vonbrigðum með að Alþingi skyldi ekki geta efnt loforð sitt við þjóðina um heildstæða stjórnarskrá.

Formaður Samfylkingarinnar sagði tilraun forsætisráðherra hafa mistekist.
Fréttablaðið/Ernir

Hann rifjaði upp það ferli sem hófst árið 2009, með þjóðfundi og kosningu og vinnu stjórnlagaráðs. Rétt væri að halda því ferli áfram og ljúka því með þjóðaratkvæðagreiðslu um heildstæða stjórnarskrá.

„Tilraun hæstvirts forsætisráðherra um að ná breiðri sátt um þessi mál á lokuðum fundi formanna, hún hefur mistekist.“

„Hvað sem öðru líður þá má að minnsta kosti fullyrða að tilraun hæstvirts forsætisráðherra um að ná breiðri sátt um þessi mál á lokuðum fundi formanna, hún hefur mistekist,“ sagði Logi.

Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum tók undir sjónarmið Loga, tilraun forsætisráðherra hafi mistekið gjörsamlega.

„Skömm að þessu“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði sinn flokk hafa verið opinskáan í sinni nálgun og reynt að mjaka skynsömum og mikilvægum breytingum áfram.

Þorgerður Katrín varar eindregið við auðlindaákvæði forsætisráðherra.

„Forsetakafli, umhverfisákvæði og íslenskan í stjórnarskrá eru allt mál sem hægt er að styðja,“ sagði Þorgerður en bætti við: „Hvort forseti verður kosinn á fjögurra ára eða sex ára fresti; það ógnar ekki auðlindum né hagsmunum þjóðarinnar. Það gerir hins vegar tillaga sem forsætisráðherra ætlar sér að kynna undir heitinu auðlindaákvæði.“

Sagði Þorgerður það algert lykilatriði að tímabinda samninga um auðlindanýtingu svo réttindi þjóðarinnar séu ótvíræð.

„Þetta undirstrikar svo rækilega af hverju þessi ríkisstjórn var stofnuð og til hvers refirnir voru skornir. Á lokametrum þessarar ríkisstjórnar verði púslið um sérhagsmuni fullkomnað.“

„Þetta undirstrikar svo rækilega af hverju þessi ríkisstjórn var stofnuð ogtil hvers refirnir voru skornir. Á lokametrum þessarar ríkisstjórnar verði púslið um sérhagsmuni fullkomnað,“ sagði Þorgerður Katrín og sagði skömm að þessu. Það væri verið að veita þjóðinni falska öryggistilfinningu með því auðlindaákvæði sem leggja eigi fram.

Ætlar ekki að hlusta á upphrópanir

Forsætisráðherra steig aftur í ræðustól í lok umræðunnar og lýsti vonbrigðum með sínum. „Mér finnst þetta mál ekki eiga skilið svona umræðu. Þetta mál er svo miklu stærra en hefðbundin dægurpólitík, miklu stærra en sú sem hér stendur. Miklu stærri en við öll,“ sagði Katrín. Hún sagðist ekki ætla ætla að bregðast við upphrópunum um pólitísk hrossakaup, sýndarsamráð leikþátt og aðrar upphrópanir af þeim toga. „Ég ætla bara að taka þetta að leyfa þessa liggja,“ sagði Katrín.

„Mér finnst þetta mál ekki eiga skilið svona umræðu. Þetta mál er svo miklu stærra en hefðbundin dægurpólitík, miklu stærra en sú sem hér stendur. Miklu stærri en við öll.“

Katrín óskaði frekar eftir efnisumræðu um almannarétt og hvort hann eigi að njóta stjórnarskrárverndar og önnur efnisatriði sem fjallað er um í fyrirhuguðu frumvarpi.

„Ég vil að íslensk tunga og íslenskt táknmál njóti stjórnskipulegrar verndar og stöðu. Viljum við það?“ spurði Katrín og hélt áfram: „Getum við rætt um það hvort grundvallarreglum umhverfisréttar eigi heima í stjórnarskrá? Ég segi já við því. Ég segi já við því að þar verði fjallað um sjálfbæra þróun og önnur þau málefni umhverfisréttarins. En um gildandi stjórnarskrá hefur verið þögul um allt of lengi.“

Ekkert ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur

Gert er ráð fyrir að frumvarp Katrínar um stjórnarskrárbreytingar verði lagt fram í dag. Í því er kveðið á um nýtt auðlindaákvæði og ákvæði um umhverfisvernd og vernd íslenskrar tungu og táknmáls. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæði stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdarvald.

Ekki verður hins vegar fjallað um framsal valdheimilda eins og gert var ráð fyrir í upphafi kjörtímabilsins. Þá kom fram í máli Katrínar að ekki verði heldur fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur að sinni. Feneyjarnefndin hafði gert töluverðar athugasemdir við þær tillögur sem henni voru sendar fyrr á kjörtímabilinu og eru þær athugasemdir á öndverðum meiði við niðurstöður rökræðukönnunnar sem forsætisráðherra lét gera um tillögurnar. Feneyjarnefndin gerði athugasemdir við þröskulda í tillögunum en niðurstöður rökræðukönnunar hafi bent til þess að setja bæri þjóðaratkvæðagreiðslum töluverð mörk.