Tveir menn reyndu að brjótast inn í verslun Gilberts úrsmiðs á Laugaveginum í nótt en öryggisgler varnaði því að þeir kæmust inn í verslunina.

„Þeir voru með hamar eða sleggju eða eitthvað til að hamast á rúðunni, lömdu í hana í þrisvar sinnum en þá er kerfið komið í gang og þá er ekkert gaman lengur,“ segir úrsmiðurinn Gilbert Ó. Guðjónsson sem hefur verið á Laugaveginum í nærri fjóra áratugi.

Voru mennirnir fljótir að hverfa á braut þegar viðvörunarkerfi verslunarinnar fór í gang klukkan 3:15 í nótt.

Hann segir að mennirnir tveir hafi skilið eftir sig tvö göt á hurðinni og brotið innra gler en sem betur fer hafi ekki orðið meira tjón.

„Það eru bara glerbrot út um alla búð. Þegar það brotnar þá er ansi mikill hvellur, það spýtist glerbrot út um alla verslunina og jafnvel inn á verkstæði hjá mér. Þetta fór fleiri metra,“ segir Gilbert sem var enn að störfum við að hreinsa upp eftir brotamennina þegar blaðamaður náði af honum tali.

Sá mennina hlaupa upp í bíl og keyra í burtu

Ólafur Halldór Ólafsson býr steinsnar frá verslun Gilberts og náði því á myndskeið þegar mennirnir óku á brott.

„Ég er að fara að sofa um þrjú í nótt og þá heyri ég rosa læti, stekk út á svalir og það fyrsta sem ég sé eru tveir menn að hlaupa upp Vitastíginn, fara í bíl og keyra í burtu.“

Fljótlega hafi öryggisverðir frá Securitas mætt á svæðið og svo lögreglumenn sem Ólafur ræddi við í kjölfarið.

Hann segist ekki hafa náð skráningarnúmeri bílsins í myrkrinu og hamaganginum en reikni með því að verða boðaður síðar til skýrslutöku hjá lögreglu.

Íhugar að setja upp rimla

Lífið heldur áfram í verslun Gilberts sem er opin í dag þrátt fyrir atvikið en næst á dagskrá er að fá mann til að mæla öryggisglerið og panta nýtt. Þá verða upptökur úr eftirlitsmyndavélum sendar lögreglu en erfitt gæti reynst að bera kennsl á mennina sem báru klæði fyrir vitum sér, að sögn Gilberts.

„Ætli maður þurfi ekki að fara að panta sér rimla fyrir þetta allt saman hérna og vera á bak við rimla. Mér finnst nú að það ætti að setja hina bak við rimla en ekki mig, ég gerði ekki neitt,“ segir hann léttur í bragði.

Vanur því að fá símtal um miðja nótt

Hann var ekki lengi að átta sig á því hvað hafi gerst þegar hann vaknaði upp við símann á fjórða tímanum í nótt enda orðinn reyndur maður í verslunarrekstri.

„Ég er orðinn svolítið vanur því að þegar síminn hringir um nótt þá sé búið að brjótast inn.“

Þó fylgi því alltaf jafn mikið ónæði.

„Ég hef fengið að vera í friði í nokkur ár en hér áður fyrr var miklu meira um þetta. Núna erum við komin með þessi skotheldu gler svo það er svolítið erfitt að komast í gegn.“

Þrátt fyrir það segir hann að meira hafi borið á slíkum tilraunum á Laugaveginum að undanförnu, einkum hjá gull- og úrsmiðum.

„Þetta er búnar að vera fimm eða sex tilraunir til innbrots á síðustu fimm mánuðum held ég. Það er engin umferð hérna lengur, það er búið að loka hluta af götunni fyrir umferð svo fólk er ekki lengur að rúnta hérna eins og var. Þetta er örugglega orðið fullkomið fyrir menn sem vilja brjótast inn.“