Drífa Snædal, fyrrverandi forseti ASÍ, segir Aðalstein Leifsson, ríkissáttasemjara, hafa farið út að ystu mörkum vinnulöggjafarinnar með því að setja fram miðlunartillögu í kjaradeilum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Hún telur tillöguna valdbeitingu af hans hálfu.
„Það er valdbeiting gagnvart launafólki og inngrip inn í deilur sem hann er að beita núna. Þetta er valdbeiting af því þarna er, það sem ég tel, fullkomlega lögleg atkvæðagreiðsla vinnandi fólks um hvort leggja eigi niður störf til að knýja á um kröfur,“ sagði Drífa í Silfrinu á RÚV fyrr í dag.
Valdbeitingin felist í því að það þurfi aukinn meirihluta til þess að hafna miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Tillagan teljist samþykkt nema henni sé beinlínis hafnað.
„Þarna er ríkissáttasemjari líka að hafa skoðanir á því hvað er góður samningur og hvað er lélegur samningur. Það er ekki hans hlutverk að ákveða það. Hann á að vera að miðla málum og hann á ekki að vera svona gerandi í deilum,“ sagði Drífa.
Drífa segir það hafa legið ljóst fyrir að þær breytingar sem Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld vilji gera á vinnulöggjöfinni snúi að því að veita ríkissáttasemjara auknar heimildir. Drífa segist alfarið á móti slíkum heimildum.
„Ég hef ekki viljað það og verkalýðshreyfingin hefur almennt verið á móti því að ríkissáttasemjari fái auknar heimildir til þess að fresta verkföllum og slíkt. Það er valdbeiting gagnvart launafólki og inngrip í deilur,“ segir Drífa.
Drífa telur Sólveigu Önnu ekki hafa farið vel með vald sitt. Þrátt fyrir það sé ekki rétt að stilla málum upp þannig að um tvær fylkingar sé að ræða, með eða á móti.
„Mér finnst hún ekki hafa farið vel með vald sitt, en það er ekki hægt að stilla hlutunum þannig upp að ef þú hyllir ekki Sólveigu Önnu, þá sértu á móti láglaunakonum eða verkafólki eða réttindum fólks til að fara í verkfall. Það er óumdeilt,“ segir Drífa.
„Ég gengst ekkert inn á þá hugmyndafræði, inn á slík skilyrði og held að það sé ekki vinnandi fólki til framdráttar að stilla þessu upp með þeim hætti.“