Á morgun, sunnudagskvöld stígur Emilíana Torrini á svið Eldborgar ásamt belgísku hljómsveitinni The Colorist Orchestra sem hún hefur unnið með undanfarin ár, en upphaf þess samstarfs má rekja til téðs ferðalags sem Emiliana lagði upp í tónlistarlega séð.


„Þegar ég var að túra eftir síðustu plötu fann ég hvernig ég var orðin hundleið á þessu öllu saman,“ segir Emiliana, en tilfinningin helltist yfir hana um það bil tveimur árum eftir að platan Tookah kom út, eða í kringum 2015.


Naut þess ekki að túra


„Ég naut þess ekkert að gera tónlist eða syngja „live.“ Mér fannst erfitt að fara frá stráknum mínum og var farin að hugsa uppi á sviði hvort maðurinn minn hefði nokkuð hent fínu bleiku peysunni minni í þvottavélina. Ég sem hafði lofað sjálfri mér að ef ég kæmist einhvern tíma á slíkan stað þá myndi ég hætta.“

„Mér fannst erfitt að fara frá stráknum mínum og var farin að hugsa uppi á sviði hvort maðurinn minn hefði nokkuð hent fínu bleiku peysunni minni í þvottavélina."

Emiliana stóð við það og hætti að túra.

„Mér fannst ég aftur þurfa að upplifa þessa himnatilfinningu þegar ég heyri eitthvað.“

Það var svo símtal frá þýskum tónlistarmanni sem vildi gera útgáfu af tónlist Emiliönu með kvintett, sem varð vendipunktur.

„Ég sagði bara: „Gerðu bara það sem þig langar og ég kem og syng. Þegar ég svo mætti tók við mér „experimental“ djasshljómsveit, en ekki kvintettinn sem talað hafði verið um.

Ég var ekki alveg í stuði til að henda mér út í svona lagað en fannst þetta svo fyndið og skemmtilegt að ég ákvað að taka þátt og segja í framhaldi já við öllum sem hefðu samband við mig. Fólk myndi velja úr lögunum mínum, gera það sem það vildi og ég kæmi svo og syngi. Ég gerði þetta í þrjú ár og kom mér í alls konar rugl og alls konar bjútí,“ rifjar hún upp hlæjandi.


Bissnessinn dró hana niður


„Ég þurfti að fara út úr bissnesnum sem var að draga mig niður. Á þessum tíma hafði The Colorist Orch­estra samband við mig og ég sagði það sama við þau og við stefndum á fimm gigg,“ segir Emiliana sem tók þessari bón rétt eins og hinum og undirbjó sig ekkert.

„Þegar ég kom út til Belgíu tók á móti mér míní orkestra með heimagerð hljóðfæri, það var búið að leggja mikið í þetta svo ég þurfti bara að vera með heyrnartól í þrjá daga og læra lögin sem þau voru búin að búa til sínar útgáfur af.“

„Ég þurfti að fara út úr bissnesnum sem var að draga mig niður."

Samstarfið gekk það vel að ákveðið var að gefa út live plötu og túruðu þau Emiliana og orkestran saman í lengri tíma.

„Svo ákváðum við að prófa að semja lög saman og gefa út á plötu.“


Spenntust að spila heima


Sú tónlist verður flutt á tónleikunum annað kvöld í bland við eldra efni. Eftirvæntingin leynir sér ekki enda segist Emiliana alltaf spenntust fyrir því að koma heim að spila.

„Þetta samstarf hefur verið ástríða mín í svolítið mörg ár en fjölskylda mín og vinir hafa enn ekki séð mig með orkestrunni.“

Aðspurð um tónlistina segir Emiliana þau fara á alls konar staði í þeim efnum.

„Tónlistin æðir úr myrkri í rómantíkina en er yfirleitt leitandi. Ég á eftir að hugsa hvað við erum.“

Sveitin æfði öll saman lögin af plötunni í fyrsta sinn fyrir nokkrum vikum enda hefur Covid sett verulegt strik í reikninginn.

Emiliana hér á milli þeirra Aarich Jespers og Kobe Proesmans úr The Colorist Orchestre. Mynd/Helga Rakel

„Ég er fegin að hafa tekið þessi æfingagigg því maður finnur hvað það er erfitt að stíga aftur á svið. Það er svolítið eins og maður sé eldgamall og koma út úr starfslokum og að reyna að átta sig á því hvort maður eigi sér pláss í þessum nýja heimi.“


Lítið sem hræðir mig


Emiliana hefur sannarlega aftur fundið neistann og vinnur nú að eigin plötu ásamt fleiru.

„Ég fann neistann þegar ég fór á þetta tryllta ferðalag. Ég er impúlsív af náttúrunnar hendi en var komin í kósý gallann. Ég þurfti að henda mér í djúpu laugina og fara í næstum því hættulegar aðstæður fyrir mig. Það er lítið sem hræðir mig eftir þetta, mér finnst ég geta allt.“

„Ég er impúlsív af náttúrunnar hendi en var komin í kósý gallann."

Nú hefur Emiliana sett ströng skil á milli vinnu og heimilis og fer eina viku í mánuði til Bretlands til að semja.

„Ég fann að mér gekk illa að skipta mér á milli þess að vera húsmóðir og poppstjarna,“ segir Emiliana og hlær.

„Ég elska bæði en á erfitt með að skipta mér á milli í daglegu lífi. Það hentar mér vel að fara utan í viku mánaðarlega og vera þá í svona „hyper focus.“

Ég blanda þessu illa saman og finnst betra að skilja í sundur. Ég brugga heima og nýt mín þar og nýt þess svo í botn að fara út og vera frjáls. Nú er ég ekkert að setja mig niður lengur eða með svipuna á sjálfri mér. Ég er sallaróleg og báðir staðirnir eru hamingjustaðir.“