Jóhanna Guðrún Jónsdóttir var í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins þar sem hún ræddi meðal annars yngstu dótturina og ákvörðunina um að hún yrði skírð í höfuðið á sér.
„Ég spyrnti hressilega á móti þessari hugmynd í svolítinn tíma,“ segir hún, en hugmyndin kom frá barnsföðurnum.
„Ég hafði sagt að hann mætti ráða nafninu enda heita eldri börnin mín í höfuðið á foreldrum mínum. Þegar hann svo kom með þessa hugmynd var ég ekki alveg á því. Hann benti þá á að það þýddi ekki að segja að hann mætti ráða og segja svo bara nei,“ segir hún og hlær.
„Ég ákvað því að segja bara ókei. Mér fannst líka mjög fallegt að hann vildi þetta – en þetta var mikið diskúterað og mér fannst þetta svolítið erfitt. Dóttir mín fékk að tilkynna nafnið í skírninni og hún þurfti alveg að venjast því að segja þetta nafn. Það voru allir pínu hissa,“ segir hún og hlær.
„Bræður mínir héldu að dóttir mín væri að grínast. En það eru allir glaðir með nafnið enda heiti ég í höfuðið á tveimur ömmum mínum,“ segir hún og viðurkennir að það hafi tekið tíma að venjast því að kalla dótturina nafninu. „Ég var sífellt að segja að ég hefði ekki valið nafnið.“