„Maðurinn minn átti tvö börn fyrir en þarna fannst mér ég ekki vera að standa mig í lífinu.“ Þetta segir háskólaneminn Kristín Ósk Óskarsdóttir um þá upplifun að fara í gegn um hverja árangurslausu glasafrjóvgunarmeðferðina á fætur annarri.

Kristín Ósk, sem hefur glímt við ófrjósemi samhliða endómetríósu, gekkst undir fjórar árangurslausar glasameðferðir á Íslandi áður en sú fimmta, sem gerð var í Tékklandi, bar árangur. Kristínu auðnaðist að ganga með og eignast yndislega dóttur, eftir að hafa fengið gjafaegg í Tékklandi. Stúlkan er í dag þriggja ára en Kristín verður 38 ára í apríl.

Endómetríósa, eða endó, er ólæknandi sjúkdómur sem herjar á um tíu prósent kvenna. Um er að ræða afar sársaukafullan sjúkdóm. Endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á ýmsum líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum, samkvæmt upplýsingum af endo.is. Kona með endómetríósu getur verið með innvortis blæðingar í hverjum mánuði á þeim stöðum sem frumurnar eru. „Þar sem þetta blóð kemst ekki í burtu geta myndast blöðrur á þessum stöðum. Einnig geta myndast samgróningar milli líffæra og innan kviðarholsins eða annarsstaðar í líkamanum. Allt getur þetta geta valdið miklum sársauka,“ segir á vefnum. Við sjúkdómnum er engin lækning og orsök hans er óþekkt. Endó getur valdið þvagblöðru- og þarmavandamálum, auk ófrjósemi.

Þess má geta að yfirstandandi vika er „Vika endómetríósu“. Samtök um endómetríósu – legslímuflakk, standa fyrir málþingi sem ber yfirskriftina Endó og (ó)frjósemi í Hringsal Landspítalans á Hringbraut, fimmtudaginn, 21. mars. Það fer fram milli klukkan 17:00 og 18:30.

Kristín Ósk greindist með endó 21 árs gömul, eftir að hafa lifað með stundum óbærilegum verkjum frá því hún byrjaði á blæðingum. „Þetta voru alltaf tveir dagar í mánuði þar sem ég var í keng heima. Ég upplifði að þetta væri væl og ég væri hálfgerður aumingi. „Ertu ekki bara á túr?“ var ég spurð,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.

Þegar hún var orðin 15 ára gömul upplifði hún það að liggja í rúminu í heila viku og komast ekki í skólann. „Ég gat ekki staðið í lappirnar og það er ekkert eðlilegt við það. Við greininguna fékk ég staðfest að þessi einkenni væru ekki ímyndun.“

Árin 2011 og 2012 fór Kristín Ósk að huga að barneignum, en þá var hún um þrítugt. Hún var einstæð og fór í glasafrjóvgun hér heima með sæðisgjafa. Hún ákvað að láta reyna á sín eigin egg. Meðferðin skilaði ekki tilætluðum árangri. „Þetta var erfitt andlega og líkamlega,“ segir hún um þessa fyrstu tilraun til að eignast barn. Þá er ónefndur kostnaðurinn, sem hleypur á mörg hundruð þúsund krónum. „Ég var einstæð og allur sparnaðurinn minn fór í þetta. Ég vildi leggja allt í sölurnar og fá þá möguleika og aukalyf sem í boði voru. Ég sagði læknunum að ég gæti ekki farið strax í meðferð aftur ef þetta gengi ekki upp.“

Hún kynntist manninum sínum, sem átti tvö börn fyrir, í lok ársins 2012 og þau byrjuðu saman í janúar 2013. Fyrst um sinn reyndu þau að eignast barn með hjálp frjósemislyfja en það gekk ekki upp. Um haustið fóru þau í sína fyrstu glasameðferð, með eggi frá Kristínu Ósk. Hún fékk ekki endurgreiðslu frá ríkinu vegna þess að litið var á svo að hún væri að byrja sína fyrstu meðferð. „Ef ég hefði skráð kærastann minn sem sæðisgjafa þá hefði ég fengið stuðning frá ríkinu – en þeir byrjuðu að telja upp á nýtt. Ég var tæknilega séð að fara í mína fyrstu meðferð.“ Aðeins varð til einn fósturvísir í þessari fyrstu meðferð þeirra saman.

Önnur meðferðin gekk heldur ekki og sú þriðja, sem þau fóru í vorið 2015, skilaði heldur ekki tilætluðum árangri. „Ég skal alveg viðurkenna að ég hef átt betri stundir í lífinu,“ segir hún um líðan sína þegar í ljós kom að þriðja meðferðin, eða sú fjórða frá upphafi, reyndist árangurslaus.

Kristín Ósk er ekki ánægð með hvernig þjónustu hún fékk frá læknunum hérna heima. „Eftir meðferð tvö hjá Art Medica, þá segir hann mér að ég fái ekki að reyna með mín egg aftur. Fósturvísarnir yrðu svo fáir. Ég grátbað þá líka um að fá að fara í smásjárglasafrjóvgun – ég vildi fá að borga meira til að reyna þá leið. Þá er skrapað í eggið, ef það er með harða skel, til að opna leið fyrir sæðisfrumuna, sem er svo stungið inn,“ útskýrir hún en í hefðbundinni glasameðferð eru sáðfrumur og egg sett í sama glasið. Kristín Ósk segist hafa fengið það í gegn með mikilli ýtni að fá að fara í þriðju meðferðina hér heima með eigin egg – og þá fá smásjárglasafrjóvgun. Það tók því mjög á hana þegar sú meðferð bar heldur ekki árangur. Hún upplifði sig misheppnaða og að hún væri ekki að standa sig í lífinu. „Mér fannst ég gríðarlega misheppnuð. Ég hef alltaf verið frekar opin út á við en þarna fór ég mikið inn í skel. Ég endaði á að fara í sálfræðimeðferð. Þetta tók mikinn toll andlega og ég var orðin kvíðin og þunglynd,“ útskýrir hún.

Kristín segir að fyrir tilstuðlan fagfólks sem hún hafði komist í samband við í gegn um þetta ferli, hafi hún verið hvött til að láta á drauma sína um barneignir reyna í Tékklandi. Smám saman hafi þau farið að sjá það sem valkost að fara erlendis. „Ég sendi póst út fljótlega eftir óléttuprufuna, nánar tiltekið 7. apríl 2015. Tveimur vikum seinna, 4. maí vorum við komin í Skype-viðtal við frjósemislækni úti.

Eftir vonbrigðin um vorið kvaddi Kristín Ósk vonir sínar um að hægt yrði að nota egg úr henni. Valið stóð um að finna egggjafa í Tékklandi eða láta reyna á ættleiðingarferli. „Mig langaði rosalega að láta á það reyna að ganga með barn. Það skipti mig öllu máli.“ Þau fóru út til Tékklands 20. júní, eftir að hafa fundið egggjafa.

Ferlið tók óvænta stefnu, á meðan þau voru úti. „Egggjafinn sem við vorum búin að velja skilaði af sér frekar fáum eggjum. Það var önnur kona sem passaði við okkur líka og var á leið í eggheimtu daginn eftir. Hún skilaði alveg fullt af eggjum,“ útskýrir Kristín Ósk. Úr varð að upp voru settir fósturvísar úr báðum konunum. Kristín Ósk veit ekki hvort egg úr þeirri konu sem þau völdu fyrst, eða hinni, var það sem frjóvgaðist. „Það skiptir akkúrat engu máli í stóru myndinni.“

Þremur vikum eftir uppsetningu tók hún óléttupróf – sem loksins reyndist jákvætt. „Þetta var bara óraunverulegt, en virkilega ánægjulegt,“ segir hún um stundina þegar prófið sýndi að hún væri ólétt. Á þeim tíma var hún búin að reyna látlaust í þrjú til fjögur ár.

Meðgangan gekk ekki alveg átakalaust fyrir sig því á 7. viku fékk hún svokallaða hreiðurblæðingu, sem gerist stundum þegar egg er að koma sér fyrir á slímhúðinni. Þá var hún þess fullviss að hún hefði misst fóstur. „Ég var búin að afskrifa þetta,“ segir hún um þá upplifun. „Við trúðum því varla þegar við sáum hjartsláttinn á skjánum.“

Að öðru leyti var meðgangan frábær. „Þetta var algjört himnaríki, að vera ekki svona verkjaður. Mér hefur aldrei liðið jafn vel,“ segir Kristín Ósk sem hefur verið á örorkubótum undanfarin ár vegna stöðugra verkja. Það að vera verkjalaus voru því mikil viðbrigði.

Kristín Ósk fæddi stúlkubarn 16. mars 2016. Hún var skírð 4. júní og þá giftu þau hjónin sig í leiðinni – öllum að óvörum. En þessi merkisdagur markaði önnur tímamót. „Það kvöld byrjaði að blæða hjá mér. Þarna var ég búin að vera stopp í um ellefu mánuði, og hafði verið svo gott sem verkjalaus. En þarna byrjar að blæða. Viku seinna var ég komin inn á spítala,“ segir hún.

Hugur Kristínar Óskar leitaði til þess að reyna að eignast annað barn. Það yrði hins vegar ekki átakalaust. Ferlið allt hafði þegar tekið af henni mikinn toll; hún nefnir kvíða, depurð og fæðingarþunglyndi ofan á vonbrigði og sjálfsefa. Hún segist hafa hugsað mér sér: „Ég á góðan mann, þrjú börn og við búum fallegu húsi. Af hverju er ég ekki hamingjusöm?“ Eftir að hafa hugsað málið vandlega ákvað Kristín Ósk, þá 36 ára, að fara í legnám. „Ég var bara búin að fá nóg,“ útskýrir hún.

Hún fékk það í gegn í lok árs 2016 en legið var tekið úr henni 27. apríl 2017. „Þá kom í ljós að ég er með staðbundna adenomyosis, en það er staðbundin endó í legvöðvanum sjálfum,“ segir hún.

Kristín Ósk leggur nú stund á háskólanám og útskrifast úr námi sínu, ef allt gengur eftir, í vor. Hún er að læra verkastjórnun og leiðtogaþjálfun. Hún hefur verið óvinnufær undanfarin ár, vegna daglegra verkja, en segist nú stefna út á vinnumarkaðinn að loknu námi. Endómetríósa er ólæknandi sjúkdómur, eins og áður segir, en legnámið breytti miklu. „Ég er ennþá með endómetríósu en það var lausn fyrir mig að losna við legvöðvann.“

Kristín Ósk vill ráðleggja öðrum konum eða pörum sem glíma við ófrjósemi að hika ekki við að leita út fyrir landsteinana. Á Íslandi hafi hún þurft að grátbiðja um að fá að borga meiri pening til að fara í smásjárglasafrjóvgun en að hún hafi fengið neitun.

Í Tékklandi hafi viðmótið verið allt annað og betra. Þar hafi öll spilin verið lögð á borðið og þeim gefnir upp ýmsir möguleikar. „Okkur var sagt að þetta væru okkur peningar og við réðum ferðinni,“ útskýrir hún. „Við vorum að kaupa þjónustu af þeim og gátum sagt til um hvernig við vildum verja peningunum okkar. Þetta var alltaf okkar ákvörðun. Á Íslandi hefur þú ekkert val.“ Hún segir að í sínum huga skipti þetta öllu máli. „Þegar ég heyri í fólki og pörum sem eru að reyna þá segir ég þeim að hætta að reyna á Íslandi. Það er ömurlegt að gera það, en ég myndi allan tímann ráðleggja fólki að fara erlendis.“