Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Kennslustjóri vill í tilefni af því hvetja til skýrari framtíðarsýnar um menntun sem besta mögulega betrunarúrræði fyrir fanga eins og rannsóknir hafa sýnt fram á.

Fyrsta haustið innrituðust 14 nemendur í iðnskóladeildina á Litla-Hrauni og tíu árum síðar voru þeir orðnir 20. Árin á eftir var nemendafjöldi svipaður, milli 20 og 30, en tók síðan kipp árið 2010 þegar námsráðgjafi var ráðinn til starfa. Síðan þá hafa að jafnaði um og yfir 60 nemendur innritað sig til náms. Námsárangur í fangelsum hefur eðli málsins samkvæmt verið upp og ofan. Til að koma til móts við nemendur er skólinn sveigjanlegri en almennt gerist og nemendur fá lengri tíma til að ljúka einstökum áföngum. Enn er margt sem má bæta í fangelsunum til þess að hvetja fanga og gefa þeim tækifæri til menntunar. Það er margtuggin staðreynd að menntun sé lykilþáttur í betrun.

Fyrstu árin var aðstaða til skólahalds fremur dapurleg en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. En betur má ef duga skal. Gylfi Þorkelsson er kennslustjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í fangelsum landsins og hefur sinnt því starfi síðustu fjögur árin.

„Þó margt hafi áunnist, nám og kennsla smám saman vaxið að umfangi og fjölbreytni, fangelsum fjölgað og starfið þróast í samræmi við það, þá má fullyrða að menntun fanga og skólastarf í fangelsum er að stórum hluta til ósáinn akur,“ segir Gylfi. „Það eru enn ótal möguleikar vannýttir. Ég og samstarfsfólk mitt höfum undanfarin ár verið að reyna að mjaka málum áleiðis með erindum, tillögum og skýrslum til þingmanna, stofnana og ráðuneyta, móta tillögur um framtíðarskipan mála, en það gengur því miður hægt að fá skýr svör og enn hægar að fá einhverjar niðurstöður, framtíðarlausnir og framkvæmdir.“

Fangelsin gefa það út að boðið sé upp á nám í öllum fangelsum en þó er það misjafnt hvers konar nám er í boði. Á Hólmsheiði er til að mynda aðeins fjarnám í boði og á Litla-Hrauni segir Gylfi að mikill skortur sé á verknámi.

Biðlisti langur í verknám

„Margir fangar glíma við athyglisbrest, lestrarörðugleika, fíkn og aðrar hindranir. Verklegt nám höfðar oft frekar til slíkra nemenda. Við hefðum viljað bjóða upp á meira verknám og það þarf að efla það stórlega. Hér á Litla-Hrauni getum við til dæmis aðeins tekið inn fimm nemendur í einu í verklega áfanga málmiðngreina, því aðstaðan á verkstæðinu býður ekki upp á meira. Það má því segja að „fyrstir koma, fyrstir fá“ og alltaf er einhver biðlisti í þetta nám. Og aðstaða til verknáms er ekki fyrir hendi í öðrum fangelsum.“

Námsráðgjafi FSu í fangelsum er með meginaðstöðu sína á Litla-Hrauni en fer einu sinni í viku á Sogn og undanfarin ár hafa fangelsin á Kvíabryggju og Akureyri einnig notið þjónustu námsráðgjafa, sem meðal annars aðstoðar nemendur þar við fjarnámsskráningar. Námsráðgjafi FSu fer einnig tvisvar í viku á Hólmsheiði. Á síðasta skólaári bættist sérkennari í fast stöðugildi við skólahald FSu í fangelsunum og heimsækir hann Litla-Hraun tvisvar í viku, en Sogn og Hólmsheiði einu sinni í viku. Þörfin fyrir þjónustu sérkennara er mikil og hana þyrfti að efla.

Fjarnám hentar misvel

„Á Hólmsheiði er bara gert ráð fyrir fjarnámi og þangað fara aðeins námsráðgjafi og sérkennari. Nemendur þar þurfa meiri þjónustu, það er meira en að segja það að setjast fyrir framan tölvu og skrá sig inn í einhver kennsluumsjónarkerfi, ekki síst fyrir nemendur með fjölþættan námsvanda. Ég myndi gjarnan vilja fara þangað sjálfur líka, til að aðstoða nemendur við tæknileg atriði og styðja þá í náminu. En til þess þarf aukið stöðugildi, kennslustjórn í fangelsum á Íslandi er aðeins 50 prósent starf. Við í FSu höfum langa reynslu af skólahaldi og þjónustu við nemendur í fangelsum og við viljum gjarnan víkka út starfsemina. Það þarf meira til en það sem er í boði núna, og það þarf ekki að kosta einhver ósköp að efla starfið verulega,“ segir Gylfi.

Þegar fangelsið á Hólmsheiði var tekið í notkun var ekki búið að hugsa til enda hvernig námi og kennslu yrði háttað þar. Það var þó ljóst strax í upphafi að ekki stóð til að reka þar hefðbundið skólastarf heldur bjóða upp á fjarnám.

„Sá böggull fylgir skammrifi að nemendur í fangelsum eiga margir erfitt með nám af ýmsum ástæðum. Það er bara gríðarleg hindrun að þurfa að setjast fyrir framan tölvu og fara í fjarnám í einhverjum skóla og hitta ekki kennara. Það er einfaldlega erfitt fyrir flesta og krefst mikils sjálfsaga. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að nemendur í fjarnámi ná miklu betri árangri og tolla betur í námi ef þeir geta hist, haft félagsskap hver af öðrum og lært saman. Sá þáttur er oft vanmetinn í sambandi við fjarnám. Auk þess er á Hólmsheiði kvennafangelsið, þar eru langtímavistaðar konur sem hafa sama rétt til náms og aðrir fangar.“

Gylfi telur að ekki væri annað meira viðeigandi en að fagna 40 ára afmæli skólahalds í íslenskum fangelsum með bættri aðstöðu og tækjakosti.

„Við erum ekkert að tala um að eyða gríðarlegum fjármunum í arkitektúr og graníthallir, heldur aðeins lítils háttar stækkun á verknámsaðstöðu, nokkur verkfæri til kennslunnar, viðunandi húsgögn í skólastofum og aðeins hlýlegra umhverfi. Þetta þarf ekki að vera flókið eða að fara fyrir ótal sérfræðinefndir, margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Gylfi að lokum.

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um fangelsismál sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Fleiri greinar eru að finna í tengdum fréttum hér að neðan.