Menntamálaráðherra setti ólögmæt skilyrði í úthlutunarreglur Menntasjóðs, sem takmarkaði rétt nemenda til námsstyrks. Málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna komst að þeirri niðurstöðu í tveimur málum þar sem nemendur í MBA námi var mismunað vegna ólögmætra skilyrða Menntasjóðs.
Í nýjum lögum um menntasjóð sem tóku í gildi þegar Covid faraldurinn gekk yfir heimsbyggðina, var bætt við ákvæði um þrjátíu prósent niðurfelling á námslánum , eða svo kallaður námsstyrkur sem námsmönnum stæði til boða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Nemum í MBA námi var hins vegar neitað að námsstyrkurinn ætti við um námslán sem stæði þeim til boða, þar sem ekki væri um fullt nám að ræða með tilliti til einingafjölda. Sér til stuðnings vísaði stjórn Menntasjóðs á reglur sem settar voru af ráðherra, að til þess að eiga rétt á námsstyrknum þyrftu nemendur að vera í að minnsta kosti þrjátíu einingum á hverri önn, en MBA námið var aðeins 22.5 einingar á önn.
Málskotsnefnd menntasjóðs bárust tvær kvartanir frá MBA nemum sem var neitað um námsstyrkinn og var nefndin skýr þegar hún ógilti ákvörðun stjórnar Menntasjóðs. Í úrskurðinum sagði málskotsnefndin að umrædd ákvæði úthlutunarreglna gætu ekki vikið frá skýru orðalagi laga Menntasjóðs um rétt nemenda sem stunda lánshæft hlutanám til að öðlast námsstyrk.

„Mér finnst þetta mjög alvarlegt“
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, lögmaður á Lagastoð rak málið fyrir hönd nemendanna tveggja, en hún sagði að Menntasjóður hafi barist með kjafti og klóm fyrir ákvörðun sinni að takmarka rétt MBA nema til námsstyrks.
„Ráðherrar voru alltaf að auglýsa hvað þeir væru að gera vel fyrir námsmenn og að þeir ætluðu að veita námsstyrk til þeirra sem uppfylla skilyrðin. En þegar á hólminn var komið þá er verið að reyna koma sér undan þessu,“ segir Sveinbjörg. Hún segir að úrskurður málskotsnefndarinnar muni hafa áhrif á fjölda nemenda í MBA námi og rétt þeirra til námslána.
„Er ráðherra að samþykkja reglur sem eru ólögmætar í eðli sínu og er þetta það sem bíður námsmanna, að þurfa að fá starfandi landsréttarlögmann til þess að kafa ofan í heimildir Menntasjóðs til þess að setja reglur. Mér finnst þetta mjög alvarlegt,“ segir Sveinbjörg.
Hún segir að nú liggi fyrir að stjórn Menntasjóðs taki nýja ákvörðun og væntanlega sé það háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leiðrétta úthlutunarreglurnar.