Bæta þarf stjórnun Menntamálastofnunar, nauðsyn er á að forstjóri hennar hafi ávallt fulla yfirsýn um fjárhag stofnunarinnar og hafi meginreglur stjórnsýslulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að leiðarljósi við stjórnun mannauðsmála. Þetta er meðal ábendinga ríkisendurskoðanda um Menntamálastofnun.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti þarf að sinna betur fjárhagslegu og faglegu eftirliti með starfsemi stofnunarinnar og þá er bent á að það sé ámælisvert að yfirstjórn hafi ekki verið kunnugt um dómsmál sem stofnunin stóð í á árinu 2018 vegna ólögmætrar uppsagnar starfsmanns.

Skýra þarf hlutverk hennar betur í lögum en ráðherra hefur að mati Ríkisendurskoðunar afar rúma heimild til að flytja verkefni til stofnunarinnar. Það er því mikilvægt að skýr verkaskipting sé tryggð og að ávallt sé ljóst hver beri ábyrgð á þeim verkefnum sem flutt eru frá ráðuneytinu. „Skortur á yfirsýn hefur neikvæð áhrif á skipulag stofnunarinnar og getur dregið úr árangri hennar við að sinna lögbundnum skyldum,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur í ljós að ráðuneyti og stofnunin hafi ólíka sýn á fjárþörf stofnunarinnar og umfang verkefna sem henni ber að sinna.