Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið sendi í dag frá sér úr­skurð um notkun svo­kallaðra „hvíldar­her­bergja“ í grunn­skólum. Meðal þess sem þar kemur fram er að ráðu­neytið telur notkun hvíldar­her­bergja ó­sam­rýman­lega grunn­skóla­lögum og „óskar eftir að hætt verði án tafar að notast við slík her­bergi“.

For­saga málsins er sú að for­eldrar barns í 4. bekk í Gerða­skóla í Garði lögðu fram kæru til lög­reglu á hendur starfs­manni skólans og skólanum eftir að dóttir þeirra var lokuð inni í svo­kölluðu „hvíldar­her­bergi“ gegn hennar vilja og án vitundar for­eldranna. At­vikið átti sér stað haustið 2020 og var kært til lög­reglunnar á Suður­nesjum skömmu síðar. For­eldrarnir sendu auk þess erindi á mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið í janúar 2021 sem var með­höndlað sem stjórn­sýslu­kæra.

Fram kemur í úr­skurði ráðu­neytisins að stúlkan hafi verið í 4. bekk og hafi verið sett í sér­úr­ræði sem fólst meðal annars í því að hún var sett í hvíldar­her­bergi sem að sögn kæranda var tóm og glugga­laus skúringa­kompa.

„Kærandi varð vitni að al­ver­legum at­vikum í skólanum þann 16. septem­ber 2020 sem leiddu til þess að lögð var fram kæra hjá lög­reglu vegna hátt­semi starfs­manns skólans. Í fram­haldi þess kveðst kærandi hafa fengið sím­tal frá að­stoðar­skóla­stjóra sem hafi greint frá að hvorki for­eldrar né barn væru vel­komin í skólann. Leit kærandi svo á að barninu hafi verið vikið úr skóla. Sveitar­fé­lagið hefur and­mælt þessari lýsingu kæranda og segir að­stoðar­skóla­stjórann hafa óskað eftir svig­rúmi í ljósi nýrra að­stæðna,“ segir í úr­skurðinum.

Leið illa í skóla og átti ekki vini

Í úr­skurði ráðu­neytisins eru máls­að­stæður raktar og þar kemur meðal annars fram að barninu hafi liðið illa í skóla. Þá hafi kærandi einnig greint frá því að starfs­menn skólans hafi lýst barninu sem skrímsli og notast við áður­nefnt hvíldar­her­bergi sem úr­ræði fyrir barnið.

„Segir kærandi barnið meðal annars hafa verið sett í hvíldar­her­bergið eftir að hafa verið haldið föstu þar til það hafi bitið sig laust.“

Fram kemur að kærandi hafi upp­haf­lega talið hvíldar­her­bergið virka sem úr­ræði en það hafi svo farið „al­gjör­lega úr böndunum“. Þegar kæran var lögð fram stóð til að barnið færi í nýtt úr­ræði á vegum Gerða­skóla að sögn kæranda.

„Greinir kærandi frá að eftir að að­stoðar­skóla­stjóri fékk fregnir af kæru kæranda til lög­reglu hafi hann fengið sím­tal frá að­stoðar­skóla­stjóra þar sem hann sagði sig og starfs­menn skólans ekki bera traust til for­eldranna og að hvorki þeir né barnið væru vel­komin í skólann. Barnið var því frá skóla frá því í desember og þar til erindið var sent, 21. janúar 2021. Leit kærandi svo á að barninu hafi verið vísað úr skóla.“

Kærandi á þrjú önnur börn í Gerða­skóla en segist hafa verið til­neyddur til að færa þetta eina barn um skóla með tölu­verðri fyrir­höfn.

Eftir að barnið var fært um skóla hafi and­leg líðan þess bæst til muna að sögn kæranda og lýsi nú­verandi skóli barnsins því sem „klárum nem­enda sem sé jafn sam­nem­endum sínum.“

„Í fyrri skóla barnsins hafi barnið ekki lengur átt vini og telur hann skóla­stjórn­endur hafa stuðlað að því með fram­komu sinni við barnið, sem kærandi lýsti með fyrra bréfi og í and­svörum sínum. Telur kærandi skólann hafa brotið gegn barni sínu í mjög langan tíma.“

Sveitar­fé­lagið segir skólann hafa leitað allra leiða

Úr­skurðurinn greinir einnig frá máls­að­stæðum sveitar­fé­lagsins þar sem er rakið að barnið hafi verið í sér­úr­ræði í Gerða­skóla þar sem al­mennt nám og kennslu­hættir í skólanum hafi ekki hægt þörfum og hag þess sem nemanda. Þar er rakið að fundað hafi verið reglu­lega með for­sjár­aðilum, barna­vernd og fræðslu­aðilum þar sem að­stæður barnsins voru ræddar með því mark­miði að leita lausna. Ein­stak­lings­miðuð stuðnings­á­ætlun hafi verið gerð í septem­ber 2020 sem skilaði árangri fyrst um sinn en þegar nær dróg jólum hafi farið að draga úr þeim árangri og líðan barnsins versnað. Að sögn sveitar­fé­lagsins leitaði skólinn til fullnustu allra þeirra leiða sem stóðu til boða til að bæta líðan barnsins og ráða bót á vandanum.

„Þá er greint frá því að 16. desember hafi átt sér stað at­vik í skólanum sem leiddi til þess að mis­brestur varð á hegðun nemandans og til að tryggja öryggi hans og annarra var hvíldar­her­bergið notað. Segir að for­sjár­aðili hafi verið upp­lýstur og sam­þykkur notkun her­bergisins í neyðar­til­vikum. Þá greinir sveitar­fé­lagið frá að sam­kvæmt frá­sögn for­sjár­aðila og nemandans sé uppi grunur um að starfs­maður skólans hafi beitt harð­ræði í her­berginu en slíkt hafi ekki verið til­kynnt skóla heldur farið beint til lög­reglu.“

Dreginn er upp tíma­lína af málinu í máls­að­stæðum sveitar­fé­lagsins og þar er enn fremur tekið fram að aldrei hafi verið tekin á­kvörðun um að vísa nemanda úr skóla.

„Máls­at­vik hafi hins vegar verið flókin og í ljósi sér­þarfa nemandans krafðist málið úr­lausna sem tekið hafi nokkra daga að koma í far­veg. Var þetta í­trekað með svörum sveitar­fé­lagsins þegar leitast var eftir af­stöðu þess til svara kæranda, dags. 6. apríl 2021.“

Telja ekki á­stæða til að ó­gilda meinta brott­vísun

Ráðu­neytið telur ekki á­stæðu til að ó­gilda meinta brott­vísun barnsins úr Gerða­skóla vegna þess að ekki hafi tekist að varpa ljósi á það með ó­yggjandi hætti um hvort að barninu hafi verið vikið úr skóla eður ei

„(...)enda ber lýsingum kæranda og kærða ekki saman um hvernig að­dragandi þess var þegar barnið fluttist á milli skóla og var á­kvörðunin, eins og kærandi lýsir henni, munn­leg og því engin gögn fyrir­liggjandi um hvað var ná­kvæm­lega sagt í því sím­tali sem um ræðir.“

Ráðu­neytið telur þó til­efni til að gera at­huga­semdir við notkun hvíldar­her­bergisins og mælir með því að notkun þess sem sér­úr­ræðis verði tafar­laust hætt.

„Telur ráðu­neytið leiða af framan­greindu að notkun hvíldar­her­bergis af því tagi sem lýst hefur verið ó­sam­rýma­lega grunn­skóla­lögum og óskar eftir að hætt verði án tafar að notast við slík her­bergi. Allir nem­endur eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi náms­um­hverfi í við­eig­andi hús­næði sem tekur mið af þörfum þeirra og al­mennri vel­líðan, sbr. 1. mgr. 13. gr. grunn­skóla­laga.“

Frétt var uppfærð kl. 22:12.