Frétta­blaðið kallaði eftir svörum mennta- og barna­mála­ráð­herra á mánu­dag og sendi ítrekun á fimmtu­dag. Fyrir­spurnin var í fjórum liðum og varðaði að­stöðu­mun fram­halds­skóla­nema út frá tekju­tengdum þáttum; spurt var hvort ferli væri komið af stað, hvort þörf væri á tíma­bundnum að­gerðum á þessu skóla­ári, hvort ráðu­neytið viður­kenndi að­stöðu­muninn og hvort hann væri brot á jöfnum réttindum barna til náms, og hvort kæmi til greina að fylgja nor­rænni fyrir­mynd varðandi náms­gagna­kaup.

Í gær bárust svör ráðu­neytisins við ofan­greindri fyrir­spurn. Engum spurningum var svarað efnis­lega en svör ráð­herra voru á þá leið að börn á Ís­landi ættu ó­skoraðan rétt til náms til 18 ára aldurs.

„Ég er að sjálf­sögðu þeirrar skoðunar að öllum börnum eigi að standa til boða jafn­ræði til náms við hæfi enda er það mikil­vægur þáttur í því að tryggja far­sæld þeirra út í lífið,“ segir Ás­mundur Einar Daða­son ráð­herra.

„Í tengslum við inn­leiðingu laga um sam­þættingu þjónustu í þágu far­sældar barna lítum við til margra þátta sem geta haft á­hrif á það hversu far­sælir ein­staklingar börn verða og hvernig kerfin okkar geta stutt betur við þau svo þau eigi meiri líkur á því að verða far­sælir ein­staklingar,“ segir hann og bætir við að þar sé menntun lykil­þáttur og skýrsla um brott­fall fram­halds­skóla­nema sé veg­vísir í þeirri vinnu. „Við munum rýna þetta mál­efni innan ráðu­neytisins með það að leiðar­ljósi að lág­marka þennan kostnað nem­enda.“

Í Frétta­blaðinu á þriðju­dag var rætt við stjórn­endur nokkurra fram­halds­skóla sem voru ekki á einu máli um þörf á fjár­hags­stuðningi við nem­endur. Var meðal annars vísað til ný­legrar skýrslu um brott­fall fram­halds­skóla­nema.

Ís­land er eina landið á Norður­löndum sem lætur nem­endur sjálfa bera kostnað af náms­gögnum á fram­halds­skóla­stigi. Meiri­hluti nem­enda stundar vinnu á meðan námi stendur.