Um 500 manns eru nú staddir á Neskaupstað til þess að sækja metaltónlistarhátíðina Eistnaflug og búist er við fleiri gestum um helgina, en hátíðin er nú haldin í fimmtánda skipti. Þetta árið er hún staðsett í Egilsbúð þar sem hátíðin var forðum haldin, en Magný Rós Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Eistnaflugs segir það vera bæði vegna hægari miðasölu og vegna þess hve Egilsbúð er í miklu uppáhaldi skipuleggjenda hátíðarinnar, hljómsveita og þeirra sem sækja hana.

„Miðað við hversu frábært er að vera hérna og hversu hamingjusamir allir eru hérna ætla ég fyrir mitt leiti að svara já. Við erum komin heim í Egilsbúð,“ segir Magný aðspurð að því hvort aðstandendur hátíðarinnar sjái fram á að halda hátíðina áfram í Egilsbúð í framtíðinni.

Byrjaði sem lítið partý

Á þeim 15 árum síðan metaltónlistarhátíðin Eistnaflug var fyrst haldin á Neskaupstað hefur hátíðin stækkað úr litlu samansettu partýi til einna stærstu tónlistarhátíða landsins. Hátíðin hefur nú verið í fullu fjöri síðastliðna 3 daga og tekur enda í kvöld með tónleikum Páls Óskars, sem er kannski ekki beint sama tegund tónlistar og hátíðin er þekkt fyrir, en að sögn Magnýar er þó búist við góðri stemmningu, „Það verða allir dansandi, eða að minnsta kosti ég!“

Magný sagði í samtali við Reykjavík Grapevine það hafa verið gaman að sjá hátíðina taka breytingum. „Þegar ég byrjaði að fara var þetta lítil hátíð með íslenskum hljómsveitum, að sjá það taka svona hamskiptum og að hljómsveitir eins og Behemoth og Meshuggah komi að spila á Neskaupstað er ótrúlegt.“

Mun ekki hætta eftir alvarlegt brot

Þá vill Magný einnig benda á algenga mýtu um hátíðina, sem er sú að henni verði hætt ef eitthvað alvarlegt brot ætti sér stað á hátíðinni. „Þetta er næstum 10 ára gömul saga, þessi orð voru sögð einu sinni á einhverju djammi af þáverandi eiganda. Við erum með starfsmenn frá Aflinu, og höldum viðbragðsfundi með lögreglu, slökkviliði og sjúkraflutningamönnum á hverjum degi hátíðarinnar. Við erum aldrei að fara að kenna þolanda slíks brots um að hátíðinni yrði aflýst.“ Og bætir hún við að hnífstunguárásin sem átti sér stað á meðan hátíðin var í gangi hafi verið á milli heimamanna sem voru hvorugir með miða á hátíðina.