Mennirnir þrír sem hand­teknir voru í gær eftir and­lát manns í Kópa­vogi þekktu manninn. Lög­regla fann þá eftir að hafa skoðað síma­sam­skipti hins látna við mennina. Einn þeirra var í dag úr­skurðaður í fimm daga gæslu­varð­hald en hinum tveimur var sleppt úr haldi. Málið er rann­sakað sem mann­dráp.

„Það voru ein­hver sam­skipti og eitt­hvað þekktust þessir aðilar. En hversu mikið get ég ekki farið út í,“ sagði Margeir Sveins­son að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn í kvöldfréttum RÚV.

Segir að slys hafi átt sér stað

Maðurinn lést á Land­spítalanum í gær en hann var fluttur þangað á föstu­dag með mikla höfuð­á­verka. Talið er að hann hafi orðið fyrir árás fyrir utan heimili sitt á föstu­dags­morguninn. Margeir sagði enn ó­ljóst hvernig hann hafi hlotið á­verkana og gat ekki svarað því hvort lög­regla teldi að ekið hefði verið á hann eða ráðist á hann með öðrum hætti.

Verjandi mannsins, sem er í gæslu­varð­haldi, sagði í dag að hann væri miður sín vegna málsins og að um slys hafi verið að ræða.

Spurður hvort ein­hver hafi orðið vitni að at­vikinu segir Margeir: „Við erum bara að kanna það.“ Lög­regla mætti á svæðið á föstu­daginn vegna til­kynninar sem henni barst um málið. „Í kjöl­farið var farið að skoða sam­skipti sem hann hafði í síma, sem leiddi til þess að þrír aðilar voru hand­teknir,“ segir Margeir.

Hann vill ekki svara því hvort lög­regluna gruni að málið tengist fíkni­efna­við­skiptum. Mennirnir þrír sem voru hand­teknir eru Rúmenar, en einn þeirra er bú­settur á Ís­landi. Hinir tveir eru ný­lega komnir til landsins. Margeir segir að ákvörðun hafi ekki verið tekin um það hvort fara eigi fram á farbann yfir þeim.