Mennirnir tveir sem grunaðir eru í hryðjuverkamálinu svokallaða verða ákærðir síðar í dag. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við Fréttablaðið.

Hann gat ekki tjáð sig um efni ákærunnar.

Talið hefur verið að mennirnir verði ákærðir fyrir skipulagningu hryðjuverka, nánar tiltekið 100. grein hegningarlaga Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þetta í fyrsta skipti sem ákæra á Íslandi mun varða þetta ákvæði. Í samtali við Mbl.is sagði Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari að það ákvæði hafi aldrei verið til skoðunar en vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Þá verður farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur, en þeir hafa nú verið í varðhaldi síðan þeir voru handteknir í lok september, eða í ellefu vikur.

Mennirnir hafi játað á sig vopnalagabrot, en greint hefur verið frá því að þeir hafi komið að vopnaframleiðslu með þrívíddarprenturum. Þó hafi þeir neitað því að þeir hafi komið að skipulagningu hryðjuverka.

Fram hefur komið að mennirnir hafi sín á milli talað um að fremja brot gagnvart einstaklingum sem eru í pólitík eða áberandi í þjóðmálaumræðunni á Íslandi.

Ekki náðist í Svein Andra Sveinsson eða Einar Odd Sigurðsson, verjendur mannanna við vinnslu fréttarinnar, en þeir hafa áður gagnrýnt lengd gæsluvarðhaldsins yfir mönnunum.

Fréttin hefur verið uppfærð