Engir við­burðir verða á Menningar­nótt í Reykja­vík þetta árið en til stóð að halda Menningar­nótt há­tíð­lega þann 21. ágúst næst­komandi. Neyðar­stjórn Reykja­víkur­borgar á­kvað þetta á fundi sínum í morgun í ljósi stöðu CO­VID-19 hér á landi.

Hátíðin hefur farið fram árlega fyrsta laugardag eftir afmæli borgarinnar þann 18. ágúst frá árinu 1996. Þetta er annað árið í röð sem við­burðinum er af­lýst en engir viðburðir voru heldur í fyrra vegna COVID-19.

„Eftir ítar­lega skoðun og um­ræðu var ein­hugur í neyðar­stjórn um á­kvörðunina um að af­lýsa fjöl­skyldu­há­tíðinni vegna út­breiðslu Co­vid-19 smita í sam­fé­laginu og ó­vissu sem ríkir um á­hrif Delta af­brigðisins á börn, ung­linga og aðra við­kvæma hópa,“ segir í til­kynningu um málið.

Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, for­maður borgar­ráðs og stað­gengill borgar­stjóra, segir að á­kvörðunin hafi verið tekin með hags­muni allra borgar­búa að leiðar­ljósi. „Það er mjög leitt að þurfa að af­lýsa þessum frá­bæra degi aftur,“ segir Þór­dís.

„En við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að sem eðli­legustu lífi í borginni og ó­rofinni þjónustu,“ segir Þór­dís enn frekar og bætir við að þar sé efst á lista að tryggja að skóla­starf fari fram með sem eðli­legasta hætti og raska sem minnst þjónustu við við­kvæma hópa.

Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands eru í gildi til 13. ágúst næstkomandi en ekki er ljóst hvað tekur við eftir þann tíma. Sóttvarnalæknir kveðst ekki ætla að senda minnisblað heldur verði það í höndum ríkisstjórnarinnar.