Loftmengunargildi í Reykjavík hafa 40 sinnum farið yfir 200 stig á þessu ári og hefur það ekki gerst áður á þessari öld.

Samkvæmt reglugerð Umhverfisstofnunar mega gildin ekki fara nema 18 sinnum á heilu ári yfir 200 stig, en langflesta daga ársins, þegar vind hreyfir, eru gildin undir 20. Samkvæmt þessu er ljóst að það tók aðeins örfáa daga í ársbyrjun að brjóta reglurnar um ársviðmið.

„Þetta er örugglega met á þessari öld. Mengunin hefur verið í meira en 40 klukkustundir yfir leyfilegum mörkum á fyrstu fimmtán dögum ársins,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.

Hann segir froststillurnar í upphafi árs valda þessari miklu mengun í borginni og nálægum bæjum. Rokið vanti og rigninguna – og í því efni geti menn horft björtum augum til næstu helgar þegar blautan vindinn tekur aftur að leggja yfir landið.

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum.
Fréttablaðið/Ernir

Því sé heldur ekki að leyna að óvíða í Evrópu sé jafn marga bíla að finna á hvern íbúa og á borgarsvæðinu, en dísilbílar, sem mengi langmest allra bíla, séu enn þá mjög algengir á götunum, jafnt fólksbílar sem og litlir og stórir flutningabílar. Úr þeim, rétt eins og bensínbílunum, berist gastegundin nítrídíósíð sem sé óæskileg fyrir lungun.

Þá sé ekkert eftirlit haft með mengunarvarnarbúnaði í bifreiðum sem eyða jarðefnaeldsneyti, en sá búnaður sé undanþeginn árlegri skylduskoðun. Þar af leiðandi sé ekkert vitað hvað þessi búnaður gagnist mikið í íslenskum bílum.

Talið er, samkvæmt evrópsku reiknilíkani, að á milli 60 og 70 Íslendingar látist af völdum öndunarfærasjúkdóma, sem rekja má beint til loftmengunar, á hverju ári. Þar veldur mestu útblástur bíla, en á Íslandi bætist svo við mikil mengun af völdum svifryks, ekki síst á þessum árstíma þegar nagladekkjanotkun er hvað mest.