Vegagerðin og sveitarfélög munu fá heimildir til þess að loka vegum vegna svifryksmengunar samkvæmt nýjum reglugerðardrögum Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra. Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar, segir heimildina aðeins verða notaða í brýnustu neyð. „Það þyrfti gríðarlega mikið að fara úrskeiðis til að við myndum beita ítrustu heimildunum,“ segir hún.

Í drögunum er einnig kveðið á um mildari aðgerðir, svo sem að stöðva akstur þungabifreiða, eldsneytisbifreiða, bifreiða með ákveðnar endatölur eða bókstafi í númeraplötu og lækka hámarkshraða.

„Við viljum mjög gjarnan komast hjá því að þurfa að beita þessu. Við erum að beita öðrum aðferðum til að reyna að koma í veg fyrir mengun, svo sem að rykbinda og hvetja fólk til að keyra síður á þessum dögum,“ segir Bergþóra. Svifryksmengun mælist nú ítrekað yfir heilsuverndarmörkum, vegna mikillar umferðar og ákveðinna veðurskilyrða.

Lokun stórs vegar eða vega á höfuðborgarsvæðinu gæti reynst erfið. „Þetta er inngrip inn í líf fólks, fyrirtækja og þjónustu, til dæmis neyðarþjónustu, sem er gríðarlega flókið og þarfnast undirbúnings,“ segir hún.

Útfærslan er hins vegar enn á umræðustigi. Nú sé aðeins verið að sækja þessa valdheimild í lögunum. Bergþóra segir að vegum yrði ekki lokað á þennan hátt nema að undangengnum mælingum og með fyrirliggjandi gögnum. Umhverfisstofnun hefur séð um mælingar loftgæða.