Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) rannsakar nú tengsl mengaðs hóstasafts við dauða yfir 300 barna. Börnin létust af völdum nýrnabilunar og kallar stofnunin til tafarlausra viðbragða vegna málsins. Samkvæmt WHO er ,,óásættanlegt magn‘‘ af eiturefnum svo sem diethylene glýkól og ethylene glýkól í hóstasaftinu en hóstasaft sex fyrirtækja eru tengd andlátunum.
Efnin geta valdið erfiðleikum við þvaglát, nýrnaskaða og dauða. Fyrsta tilvikið var í júlí 2022 í Gambíu og í kjölfarið komu tilfelli frá Indónesíu og Úsbekistan. Á mánudaginn síðastliðinn tilkynntu Sameinuðu þjóðirnar að rannsókn vegna fleiri andláta hefur víkkað til fjögurra landa, til Kambódíu, Filippseyja, Austur-Tímor og Senegal.
UN hefur hvatt ríkisstjórnir og önnur alþjóðleg fyrirtæki til þess að bæta eftirlit á lyfjum til þess að útiloka gölluð lyf, en atvikin hafa vakið athygli á því að eftirfylgni sé ábótavant á almennum lyfjum.
WHO hefur nú þegar gefið út sérstakar viðvaranir vegna hóstasafts framleitt af tveimur indverskum fyrirtækjum, Maiden Pharmaceuticals og Marion Biotech í október 2022 sem og fyrr í þessum mánuði. Hefur stofnunin sagt að hóstasaftin þeirra séu tengd við andlát í Gambíu og Úsbekistan og beðið fólk um að hætta að nota þau. Báðum verksmiðjum hefur verið lokað en Maiden sækist eftir því að opna aftur og neitar sök.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ætlar einnig að skoða að ráðleggja fjölskyldum að endurmeta þörf þess að gefa börnum hóstasaft þar sem óljóst er hvort neysla á þeim sé örugg
Frétt Reuters og tilkynning Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um málið.