Gríðarleg aukning hefur orðið á tilkynningum um eitrun barna af völdum svefnlyfsins Melótónín í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram á vef Newser.com en Bandaríska eitrunarmiðstöðin hefur greint frá því að í kringum 52.000 tilkynningar hafi borist þeim á síðasta ári sem er sexföldun á tilkynningum frá því á síðasta áratug.

Dr. Karima Lelak, sem leiðir rannsóknarteymið sem skoðaði þessa aukningu, telur að foreldrar taki efnið ekki eins alvarlega og þau ættu að gera og skilji oft flöskur og ílát sem innihalda lyfið í seilingarfjarlægð eða á náttborðinu. „Þetta er ekki vítamín eða fæðubótarefni heldur lyf sem geyma ætti í lyfjaskáp.“ Segir hún.

Lyfið er gríðarlega vinsælt svefnmeðal í Bandaríkjunum og hefur sala þess aukist um 150% á árunum 2016 – 2020.

Lyfið er oft selt pilluformi en einnig sem gúmmí sem líkist sætindum í Bandarískum verslunum sem gæti útskýrt löngun barna til þess að innbyrða efnið.

Melótónín er vinsælt svefnlyf í Bandaríkjunum
Mynd/getty

Hvað er melótónín?

Eins og fram kemur á vef lyfju.is er Melótónín hormón sem myndast í heilakönglinum sem er fyrir miðju heilans. Það á þátt í að stilla hina eðlislægu klukku okkar og stuðlar að því að við finnum til þreytu á kvöldin.

Þar kemur fram að engin börn, og raunar engir undir tvítugsaldri, ættu að taka lyfið, þar sem fólk í þessum aldurshópi myndar mikið af efninu í líkama sínum náttúrulega.

Lyfið er selt hér á landi en er lyfseðilsskylt en hægt er að kaupa lyfið án lyfseðils í Bandaríkjunum í flestum matvöruverslunum.

Flestir fullorðnir einstaklingar verða fyrir litlum áhrifum af stórum skömmtum af lyfinu en börn sem verða fyrir því að taka of stóran skammt af melótónín geta í sumum tilfellum þurft á læknisaðstoð að halda.

Rannsóknarhópurinn sem leiddur var af Dr. Lelak skoðaði 10 ára tímabil, frá 2012-2021, og telur að af þeim börnum sem innbyrtu of stóran skammt hafi 4000 þurft á læknisaðstoð að halda.

Einkenni geta verið uppköst og erfiðleikar með andardrátt.