Svo virðist vera sem ákveðinn klofningur sé í innsta hring Donalds Trump vegna forsetakosninganna sem fram fóru í síðustu viku. Donald Trump hefur neitað að játa sig sigraðan og tilkynnti hann um helgina að kosningateymi hans myndi í dag hefja málaferli vegna talningaferilsins.
Heimildir CNN herma að skiptar skoðanir séu um þetta í innsta hring Trumps. Þannig eru bæði forsetafrúin Melania Trump og Jared Kushner, tengdasonur Trump og einn helsti ráðgjafi, sögð hafa ráðlagt forsetanum að játa sig sigraðan.
Það eru þó ekki allir á því að Trump eigi að leggja árar í bát. Þannig herma heimildir CNN að synir forsetans, Donald Jr. og Eric, hafi hvatt hann til að halda áfram og um leið hvatt hátt setta stuðningsmenn hans til að neita að viðurkenna úrslit kosninganna.
Donald Trump sagði um helgina að kosningunum væri langt því frá lokið þó allir helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna hefðu lýst Joe Biden sigurvegara. „Ég mun ekki sitja rólegur fyrr en bandaríska þjóðin fær þá heiðarlegu talningu atkvæða sem hún á skilið og lýðræðið á skilið,“ sagði Trump um helgina.
Í frétt CNN kemur fram að forsetinn muni nú meðal annars reyna að færa sönnur á það að látnir einstaklingar hafi greitt atkvæði í kosningunum.