Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, segir vinnubrögð meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar óboðleg. Meiri hlutinn ákvað fyrir helgi að ljúka frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, vegna tengsla hans við Samherja, með bókun.

Alvarlegt að stoppa málið með einni bókun

Ágreiningur var milli nefndarmanna um hvernig ljúka ætti málinu en minni hluti telur málið ekki fullrannsakað. Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og framsögumaður málsins sagði í bókun sinni að tilgangslaust væri að ræða málið frekar. Nefndarmenn sem tóku undir með bóku Líneikar voru Birgir Ármasson (fyrir hönd Brynjars Níelssonar) og Óli Björn Kárason í Sjálfstæðisflokknum, Kolbeinn Óttarsson Proppé í Vinstri-grænum, Þorsteinn Sæmundsson í Miðflokknum og Þórunn Egilsdóttir í Framsóknarflokknum.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður nefndarinnar lagði fram gagnbókun, sem Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar (fyrir hönd Guðmundar Andra Thorsson) og Andrés Ingi Jónsson óháður þingmaður tóku undir, um að afstaða meiri hlutans bæri merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minni hlutans á þingi, ýtti undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirti sérstakt eftirlishlutverk nefndarinnar og væri til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því.

„Á þetta í alvörunni að verða fordæmi hér á hinu háa Alþingi?“

Þorgerður Katrín segir niðurstöðuna ekki koma á óvart en að slík vinnubrögð séu ólýðræðisleg.

„Að stoppa athugun kemur eitt og sér ekki á óvart þegar þessir þrír stjórnarflokkar eiga í hlut. Það sem er hins vegar alvarlegt er hvernig meiri hlutinn ráðskast með hlutverk sitt með þeim hætti að þeir telja það duga að henda inn einni bókun til að stoppa mál og koma í veg fyrir frekari umfjöllun. Með svona afgreiðslu, sem á endanum mun koma til kasta forseta þingsins, býður meiri hlutinn upp á feluleik og gerir málið sjálft að stórmáli því það er ekkert smámál að draga tennurnar úr eftirlitshlutverki Alþingis“

Þorgerður Katrín segir meiri hlutann gerið málið sjálft að stórmáli með því að draga tennurnar úr eftirlitshlutverki Alþingis.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Ólýðræðislegt og óboðlegt

Þorgerður Katrín var harðorð gagnvart stjórnarflokkunum sakar meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að kippa eftirlitshlutverki Alþingis úr sambandi.

„Það er ólýðræðislegt og óboðlegt. Við erum verið margbúin að upplifa það af hálfu stjórnarflokkanna að ef þeir sitja ekki sjálfir á skýrslum, þá eru þeir hreinlega á móti skýrslubeiðnum sem við höfum lagt fram hér á þinginu, eins og að bera saman greiðslur Samherja fyrir veiðiheimildir í Namibíu við greiðslur á Íslandi. Þar var eftir því tekið hversu eindregið Sjálfstæðisflokkurinn var á móti. Þar fyrir utan er gert lítið úr fyrirspurnum þingmanna. Menn eru lengur að svara en nokkur dæmi finnast í þingsögunni og nú á að gera allt til þess að kippa eftirlitshlutverki Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu úr sambandi,“ sagði Þorgerður og velti fyrir sér hvers konar fordæmi þetta væri fyrir frumkvæðisathuganir framtíðarinnar.

„Á þá meiri hluti með þessum hætti að geta komið í veg fyrir afgreiðslu mála og hindra þannig að mál fái fullnægjandi meðferð? Á þetta í alvörunni að verða fordæmi hér á hinu háa Alþingi, algerlega óháð því máli sem hér var undir?“

Þorgerður sagði ljóst að málið væri mjög viðkvæmt fyrir ríkisstjórninni þar sem það tengist Samherja, fiskveiðistjórnarkerfið og sérhagsmunum sem þar liggja undir.

„Burt séð frá því þá eru þessi vinnubrögð óboðleg og sannarlega ekki hluti af margboðaðri eflingu Alþingis og þetta er í boði Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.“

„Þeir eru hreinlega á móti skýrslubeiðnum sem við höfum lagt fram hér á þinginu, eins og að bera saman greiðslur Samherja fyrir veiðiheimildir í Namibíu við greiðslur á Íslandi. Þar var eftir því tekið hversu eindregið Sjálfstæðisflokkurinn var á móti.“
Fréttablaðið/Anton Brink