Á fundi borgar­ráðs í morgun var sam­þykkt til­laga borgar­ráðs­full­trúa Sam­fylkingar, Við­reisnar, Pírata og Vinstri grænna um heildar­út­tekt á endur­gerð braggans við Naut­hóls­veg.

Borgar­ráð sam­þykkti að fela Innri endur­skoðun Reykja­víkur­borgar að ráðast í heildar­út­tekt á öllu því ferli sem endur­gerð braggans fól í sér.

„Við í meirihlutanum lögðum fram tillögu um að hin óháða rannsókn sem Innri endurskoðun hefur hafið gangi enn lengra, þannig engir angar málsins verði undanskildir. Með því erum við að sýna og beita okkur fyrir því að allt verði upplýst og að það verði engin yfirhylming, svo það sé hægt að bæta kerfið,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og forseti borgarstjórnar í samtali við Fréttablaðið í dag.

Dóra segir meirihlutann samstíga um að málið verði upplýst. Í tillögunni er óskað eftir því að Innri endurskoðun borgarinnar geri tillögur að umbótum í tengslum við það sem aflaga fór í framkvæmdinni og þær ákvarðanir sem voru í bága við vandaða stjórnsýsluhætti.

Óháð eða utanaðkomandi?

Upphaflega hafði minnihlutinn óskað eftir því að óháð rannsókn færi fram á framkvæmdinni. Því hafnaði meirihlutinn og fól Innri endurskoðun borgarinnar að sjá um rannsóknina.

Spurð út í gagnrýni minnihlutans um að óháð rannsókn fari fram á framkvæmdinni gefur Dóra ekki mikið fyrir hana og segir þá rannsókn sem Innri endurskoðun mun framkvæma vera óháða.

„Innri endurskoðun er óháður aðili. Það er munur á því að vera óháður og utanaðkomandi. Hún mun kalla til sín utanaðkomandi aðila til að aðstoða sig einfaldlega svo þetta gangi sem hraðast fyrir sig. Þau munu sækja sér liðsauka. En þau sem eru að tala niður Innri endurskoðun og segja að þetta sé ekki óháð stofnun eru frá mínum bæjardyrum séð að grafa undan rannsókninni og eru ekki í raun að leita svara heldur að eru að reyna að valda fjaðrafoki og pólitískum óróa. Ef þú vilt upplýsa um málið þá viltu ekki grafa undan stofnuninni sem er að fara að koma með svörin,

Píratar kölluð á fund grasrótar sinnar

Í gær var tilkynnt að grasrót Pírata hafi boðað borgarstjórnarflokk Pírata á félagsfund vegna framúrkeyrslu hjá Reykjavíkurborg í Braggamálinu svokallaða. Borgarstjórnarflokkur Pírata fór því í vettvangsferð í Braggann í Nauthólsvík í morgun ásamt skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar borgarinnar.

„Þetta var áhugavert yfirferð og gott að sjá það sem maður hefur aðeins lesið um á blaði. Þetta er liður í gagnaöflun sem Píratar hafa ráðist í því við höfum verið kölluð á fund grasrótar Pírata á laugardaginn. Það var gott að starfsfólk borgarinnar skyldi gefa sér tíma til að koma og svara okkar spurningum um þetta mál. Þau voru öll af vilja gerð til að sýna okkur og vilja beita sér fyrir því að þetta mál verði upplýst,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og forseti borgarstjórnar í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Við ætlum að svara fyrir það sem við getum og erum að beita okkur fyrir því að málið sé upplýst að fullu svo það sé hægt að gera úrbætur á kerfinu til að koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur,“ segir Dóra.

Framkvæmdum lokið að fullu

Spurð að lokum hvernig henni lítist á braggann eftir endurbæturnar segir Dóra að það sé áhugavert að sjá húsin og fá það staðfest að framkvæmdum sé lokið af hálfu borgarinnar.

„Það er líka gott að fá það staðfest að framkvæmdum er lokið og það verða ekki meiri peningar settir í þetta verkefni af hálfu borgarinnar,“ segir Dóra og bætir við að ef einhver fari í meiri framkvæmdir á svæðinu þá yrði það á ábyrgð Háskólans í Reykjavík, sem myndi gera það einhliða.