Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, gagnrýnir ákvörðun meirihluta nefndarinnar sem ákvað fyrir helgi að ljúka frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, vegna tengsla hans við Samherja, með bókun.

Í umræðum um störf þingsins í gær setti Þórhildur Sunna mál nefndarinnar í samhengi við lagafrumvarp um varnir gegn hagsmunaárekstrum æðstu stjórnenda ríkisins, sem var samþykkt í gær. Þórhildur Sunna sagði frumvarpið vera framfaraskref en þó væri margt ábótavant.

„Þar er ekkert sjálfstætt eftirlit með því að reglunum verði fylgt. Og ekki nóg með það – þar er nákvæmlega ekkert eftirlit með því að ráðherrar fylgi reglum um skráningu hagsmuna sinna. Hvers vegna ekki? Skýrustu svörin sem ég hef heyrt, eru að ekki hafi náðst samstaða í meirihlutanum um sjálfstætt eftirlit, nú eða eftirlit yfirhöfuð, gagnvart því hvernig ráðherrar sinna vörnum sínum gegn hagsmunaárekstrum,“ sagði Þórhildur Sunna og skýrði svo frá því að meirihlutinn hafi þó náð samstöðu á öðru máli fyrir helgina. Máli um frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegsráðherra.

„Meirihlutinn náði þó samstöðu fyrir helgi þegar hann lýsti því yfir að það væri tilgangslaust að halda áfram að kanna hagsmunatengsl hæstvirts sjávarútvegsráðherra vegna tengsla hans við sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja. Um það náðist samstaða í meirihlutanum.“

Ekki trúverðug niðurstaða

Þórhildur Sunna segir þessa samstöðu þýða að Kristján Þór Júlíusson ráðherra geti falið sig bak við það að meirihluti nefndarinnar hafi ákveðið að ekkert væri að finna í athugun á tengsl hans við Samherja.

„Ekkert að sjá hér, eins og sagt er,“ sagði hún og ítrekar að niðurstaðan sé ekki trúverðug. Málsmeðferðin setji hættulegt fordæmi gagnvart skýlausum rétti minnihlutans til að hafa eftirlit með verklagi og störfum ráðherra sem sitji í skjóli meirihlutans.

Betra hefði verið að afgreiða málið mðe skýrslu að aflokinni gagnaöflun og gestakomum til þess að geta rætt málið í þingsal. Eins og Fréttablaðið greindi frá ákvað meirihlutinn hins vegar að ljúka málinu með bókun en nefndarálit hefði að minnsta kosti verið upphafið að umræðu innan Alþingis. Nefndin hefur óskað eftir úrskurði frá forseta þingsins um hvernig ljúka megi frumkvæðisathugugunum.

„Meiri hlutinn semsagt rannsakar sjálfan sig og kemst að því að það sé ekkert athugavert við stjórnarhætti síns ráðherra. Það er ekki mjög trúverðug niðurstaða það verður að segjast eins og er.“

Hér fyrir neðan má sjá ræðu Þórhildar Sunnu í heild sinni.