Fulltrúi Framsóknarflokksins í fjölskylduráði Hafnarfjarðar kaus með Samfylkingu, til að samþykkja hækkun tímagjalds fyrir NPA-samninga fyrir fatlað fólk, eins og NPA miðstöðin hefur farið fram á. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem situr með Framsókn í meirihluta, sat hjá, en áheyrnarfulltrúi Viðreisnar studdi einnig tillöguna.

Með samþykktinni mun tímagjald samninga í Hafnarfirði taka mið af kjarasamningum NPA miðstöðvarinnar og Eflingar fyrir aðstoðarfólk NPA-notenda. Öll önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið upp þann taxta.

Heildarfjöldi samninga í Hafnarfirði eru 19 og samþykktin er afturvirk til síðustu áramóta. Áætlað er að kostnaðarauki sveitarfélagsins vegna þessa séu um 45 milljónir króna.