Meirihlutinn í Reykjavík rétt heldur velli, samkvæmt nýrri könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið.Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkurinn í borginni, bætir örlítið við sig frá kosningum og heldur sínum átta borgarfulltrúum. Fylgi flokksins er mun betra en þegar Fréttablaðið lét mæla fylgið síðast, í október í fyrra. Þá mældist flokkurinn með 23,4 prósent en er með 31 prósent nú, sé miðað við þá sem tóku afstöðu í könnuninni.

Samfylkingin dalar hins vegar aðeins frá kosningunum. Fer úr kjörfylginu 25,9 prósent niður í 22,8 prósent og tapar einum manni. Píratar bæta hins vegar við sig einum manni á móti og aðrir flokkar í meirihlutanum, Viðreisn og Vinstri græn, halda sínum mönnum.

Vigdís dettur út

Miðflokkurinn missir hins vegar sinn eina mann í borgarstjórn og mælist ekki með nema 1,4 prósent. Framsóknarflokkurinn sækir hins vegar aðeins í sig veðrið og mælist með 4,1 prósent, sem dugar fyrir einum borgarfulltrúa, en flokkurinn fékk engan mann kjörinn í borgarstjórn í síðustu kosningum.

Það athugast að á áttunda degi könnunarinnar, af þeim tíu sem tók að framkvæma hana, lýsti oddviti Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds, yfir að hann hefði hætt við að vera í framboði fyrir næstu kosningar.Hreyfing á fylgiHafa ber í huga að fylgið sem hér ræðir um miðast aðeins við þá sem tóku afstöðu til flokkanna, en könnunin sýnir að 30 prósent segjast ekki vita hvað þau myndu kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag.

Þegar skoðað er hvernig þátttakendur kusu í síðustu borgarstjórnarkosningum, kemur í ljós að Sjálfstæðismenn eru langtrúastir sínum flokki, en 89 prósent þeirra sem kusu flokkinn í síðustu kosningum ætla líka að kjósa hann nú. Næst á eftir koma kjósendur Flokks fólksins sem ætla að kjósa sama flokk aftur í 82 prósentum tilvika. Kjósendur Samfylkingarinnar og Pírata ætla að kjósa sinn flokk aftur í 78 prósentum tilvika.

Innan við helmingur þeirra sem kusu VG í síðustu kosningum ætlar að kjósa flokkinn núna og ætla 26 prósent þeirra að kjósa Samfylkinguna. Þá ætla 36 prósent þeirra sem kusu Miðflokkinn síðast og 27 prósent þeirra sem kusu Viðreisn, að kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú.

Töluverður munur er á kynjunum í afstöðu til, annars vegar Sjálfstæðisflokks og hins vegar Samfylkingar. Af þeim körlum sem taka afstöðu segjast 37 prósent ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 20 prósent Samfylkinguna. Hlutföllin eru mun jafnari hjá konum, en 24 prósent þeirra segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en 26 prósent kvenna velja Samfylkinguna.

Skörp skil eftir aldri

Fólk á aldrinum 24 til 54 ára sker sig úr í niðurstöðum könnunarinnar, en 44 prósent fólks á þeim aldri sem tók afstöðu í könnuninni, segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og aðeins 17 prósent Samfylkinguna.

Skörp skil eru einnig í stuðningi við Pírata eftir aldri, en í yngsta kjósendahópnum segjast 26 prósent ætla að kjósa Pírata. Flokkurinn nýtur yfir 20 prósenta stuðnings í öllum aldurshópum innan við 45 ára aldur, en stuðningur við flokkinn hrynur niður í fimm prósent í öllum aldurshópum þar fyrir ofan.

Þegar horft er á tekjur vekur athygli að stuðningur við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu hækkar í báðum tilvikum, eftir því sem tekjur þátttakenda aukast. Báðir flokkarnir njóta mests stuðnings meðal þeirra sem mestar hafa tekjurnar. Fólk sem hefur 800 þúsund eða meira í tekjur á mánuði ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í 35 prósentum tilvika, en 32 prósent þátttakenda í þeim tekjuhópi segjast ætla að kjósa Samfylkinguna.

Píratar eru hins vegar vinsælasti flokkurinn í tekjulægsta hópnum, með 21 prósents fylgi, fast þar á eftir er Sjálfstæðisflokkurinn með 20 prósent og svo Samfylkingin með 17 prósent. Þar nær Flokkur fólksins einnig 15 prósenta fylgi.

Samgöngur í forgang

Fréttablaðið lét einnig kanna hug þátttakenda til málefna. Var þátttakendum boðið að haka við þrjá flokka stefnumála.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar finnst þátttakendunum mikilvægast að setja velferðar- og heilbrigðismál í forgang, en 34 prósent merktu við þau, auk húsnæðis- og lóðamála sem 29 prósent merktu við. Þá nefndu 25 prósent samgöngumál og almenningssamgöngur komust einnig á blað í 25 prósentum tilvika.

Rétt tæp 20 prósent nefndu málefni eldri borgara, umhverfismál og skólastarf.Sjálfstæðismönnum eru samgöngumál efst í huga, en 38 prósent þeirra nefna þann málaflokk sérstaklega. Aðeins tíu prósent þeirra hafa þó áhuga á almenningssamgöngum, samkvæmt könnuninni. Mikill áhugi er hins vegar á þeim hjá kjósendum Samfylkingarinnar, sem nefna málaflokkinn í 48 prósentum tilvika.

Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 22. desember, en um netkönnun var að ræða sem send var á könnunarhóp Prósents. Úrtakið var 1.700 manns og svarhlutfallið 51 prósent. Gögnin voru vigtuð til að úrtakið endurspegli álit íbúa Reykjavíkur og tekið var tillit til kyns og aldurs.