„Þetta eru gríðarlega sterkar niðurstöður fyrir meirihlutann. Að mælast samtals með tæp 58 prósent á miðju kjörtímabili er magnaður árangur. Ég er mjög stoltur af hópnum og þakklátur fyrir stuðninginn,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um niðurstöður nýrrar könnunar um fylgi flokka í borgarstjórn.

Samkvæmt könnuninni sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið mælast flokkarnir fjórir í meirihlutanum samtals með 57,9 prósenta fylgi samanborið við 46,4 prósent í kosningunum vorið 2018. Miðað við niðurstöður könnunarinnar myndi meirihlutinn fá 15 borgarfulltrúa af 23 en hefur í dag 12.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn líkt og í kosningunum og í könnun sem gerð var í október 2018. Flokkurinn mælist nú með 23,4 prósent en fékk 30,8 prósent í kosningunum.

„Við erum langstærsti flokkurinn miðað við þessa könnun. Fylgið dreifist mjög mikið eins og stundum gerist á miðju kjörtímabili. Síðan er reynslan sú að valkostirnir verða skýrari fyrir kosningar. En þetta er bara brýning til okkar að vera sterkur valkostur við meirihlutann,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni, með 15,9 prósent en flokkurinn fékk 7,7 prósent í kosningunum.

„Þessi könnun sýnir að Píratar eru komnir til að vera. Við höfum sýnt það í verki að við erum stjórntækur flokkur. Niðurstöðurnar sýna líka að borgarbúar velja framtíðina. Ég held að það séu stóru fréttirnar í þessu,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, um niðurstöðurnar.

Samfylkingin mælist næststærsti flokkurinn með 19,4 prósent en flokkurinn fékk 25,9 prósent í síðustu kosningum. Hinir þrír flokkarnir í meirihlutanum bæta hins vegar allir við sig fylgi, bæði frá kosningunum og síðustu könnun.

Vinstri græn bæta miklu við sig og eru nú með 11,4 prósent en fengu 4,6 prósent í kosningunum. Þá er Viðreisn með 11,2 prósent í könnuninni en fékk 8,2 prósent í kosningunum.

Sósíalistaflokkurinn mælist með 7,1 prósent en fékk 6,4 prósent í kosningunum 2018. Miðflokkurinn er nú með 4,8 prósent en var með 6,1 prósent í kosningunum og Flokkur fólksins mælist með 2,9 prósent miðað við 4,3 prósent í kosningunum.

Framsóknarflokkurinn fékk ekki borgarfulltrúa kjörinn í síðustu kosningum og það myndi ekki breytast miðað við niðurstöður könnunarinnar en flokkurinn mælist með 2,6 prósent.

Miðað við niðurstöður könnunarinnar myndi meirihlutinn bæta við sig þremur borgarfulltrúum, fara úr 12 í 15, en alls eru 23 fulltrúar í borgarstjórn.

Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndu tapa tveimur borgarfulltrúum samkvæmt könnuninni. Píratar og Vinstri græn myndu hins vegar bæta við sig tveimur fulltrúum hvor flokkur.

Viðreisn myndi bæta við sig einum borgarfulltrúa en Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn halda sínum eina fulltrúa. Flokkur fólksins myndi miðað við þessar niðurstöður missa sinn eina fulltrúa.

Alls fengi Sjálfstæðisflokkurinn sex borgarfulltrúa kjörna og Samfylkingin fimm. Píratar fengju fjóra borgarfulltrúa en Vinstri græn og Viðreisn fengju þrjá hvor flokkur. Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn fengju einn fulltrúa.

Könnun Zenter rannsókna var send á Reykvíkinga 18 ára og eldri frá 16. júlí til 13. ágúst síðastliðinn. Í úrtakinu voru 1.275 einstaklingar og var svarhlutfall 51 prósent. Gögnin voru greind eftir kyni og aldri. sighvatur@frettabladid.is

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Gott veganesti

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fagnar því að allir samstarfsflokkar Samfylkingarinnar í meirihlutanum sæki á.

„Ég held að þetta sé mjög gott veganesti inn í seinni hluta kjörtímabilsins. Það sem hefur einkennt fyrri hluta kjörtímabilsins eru mjög harðar árásir minnihlutans á meirihlutann. Þær hafa hlotið lítinn hljómgrunn,“ segir Dagur.

Spurður um minnkandi fylgi Samfylkingarinnar segir hann að það hafi verið reglan undanfarin kjörtímabil þegar flokkurinn hafi leitt að hann dali aðeins um mitt kjörtímabil.

„En svo höfum við sótt í okkur veðrið þegar líður að kosningum. Það sem mestu skiptir er heildarstuðningurinn við meirihlutann og að allir njóti sín í svona fjölflokka samstarfi. Það hefur alltaf verið mitt leiðarljós í borgarstjórninni þannig að ég er mjög ánægður með þessar niðurstöður.“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þurfum að leiða fram breytingar

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir fyrri hluta kjörtímabilsins hafa einkennst af mörgum erfiðum málum fyrir meirihlutann.

Hann bendir á að Samfylkingin sé samkvæmt könnuninni komin undir 20 prósenta fylgi. Í aðdraganda síðustu kosninga hafi flokkurinn mælst með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn sem hafi svo endað með 31 prósent.

„Við höfum lagt upp með að vera með málefnalega gagnrýni. Ég held að það skili sér á endanum og það skilar sér í því að við erum í þessari mjög dreifðu könnun langstærsti flokkurinn,“ segir Eyþór.

Þá segir hann að fram að næstu kosningum verði meiri sóknarleikur. „Þessi könnun sýnir að valkosturinn við núverandi ástand er fyrst og fremst við og við þurfum að leiða fram breytingar í borginni. Ég held að það sé grundvöllur fyrir það.“

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata.

Græn borg til framtíðar

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, segist stolt af verkum meirihlutans á kjörtímabilinu.

„Við höfum skilað miklum árangri fyrir borgarbúa og ég tel meirihlutasamstarfið hafa gengið vel. Það getur auðvitað verið flókið verkefni að sameina áherslur fjögurra mismunandi flokka en okkur hefur tekist að binda saman sameiginlega styrkleika okkar. Við setjum mikinn kraft í græn málefni og erum sameiginlega að byggja græna borg framtíðar,“ segir Dóra Björt.

Hún segir Pírata standa fyrir nýja sýn á pólitík þar sem stjórnmálin þjóni fólkinu með heiðarleika í fyrirrúmi.

„Við gætum almannahags og það er gríðarlega frelsandi í pólitík. En þar að auki held ég að það skipti almenning máli að við erum tilbúin að gera það sem raunverulega þarf til að takast á við loftslagsvandann.“