Meiri­hlutinn í borginni heldur naum­lega miðað við nýja könnun Maskínu með tólf borgarfulltrúa. Þar er Sam­fylkingin er stærsti flokkurinn með 22,8 prósent á meðan Sjálf­stæðis­flokkurinn er næst­stærstur með 20,5 prósent. Í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem RÚV birtir fyrir skemmstu er meirihlutinn hinsvegar naumlega fallinn með ellefu borgarfulltrúa og missa einn til Sjálfstæðisflokksins.

Í könnun Maskínu er Fram­sóknar­flokkurinn er næst­stærsti flokkurinn miðað við könnunina, með 0,1 prósentu­broti meira fylgi en Píratar. Flokkurinn fengi 14,6 prósent at­kvæða ef gengið yrði til kosninga núna en Píratar 14,5 prósent at­kvæða.

Flokkur fólksins kemur þar á eftir í könnun Maskínu með 6,5 prósent fylgi, Sósíal­istar eru með 6,3 prósent fylgi á meðan Við­reisn er með 5,4 prósent fylgi. VG mælist með 4,2 prósent fylgi. Könnun Maskínu fór fram dagana 12. og 13. maí og voru svarendur 660 talsins.

Miðað við könnun Maskínu heldur meiri­hlutinn naum­lega með tólf borgar­full­trúa af 23. Sam­fylkingin fengi sex, Píratar fjóra og Við­reisn og VG einn hvor. Þannig myndi Pawel Bartozsek, borgarfulltrúi Viðreisnar missa sæti sitt, en Viðreisn fékk tvo borgarfulltrúa í kosningunum 2018.

Sjálfstæðis­flokkurinn fengi fimm borgar­full­trúa, Fram­sóknar­flokkurinn fjóra, á meðan Flokkur fólksins og Sósíal­istar fengju einn hvor. Mið­flokkurinn og Á­byrg fram­tíð hlytu engan. Áður hafa Framsóknarmenn mælst með þrjá borgarfulltrúa í könnunum Maskínu og bæta því við sig einum.

Könnun Maskínu.

Meiri­hlutinn heldur ekki í könnun Gallup

Í könnun Gallup fær meiri­hlutinn ellefu borgar­full­trúa og fellur meiri­hlutinn því naum­lega. Sam­fylkingin mælist með sex borgar­full­trúa, Píratar þrjá, Við­reisn einn og Vinstri grænir einn.

Þar er Fram­sókn einnig með fjóra menn líkt og í könnun Maskínu. Sjálf­stæðis­flokkurinn fengi sex borgar­full­trúa, Sósíal­istar einn, Flokkur fólksins einn en Mið­flokkur engan.

Sam­fylkingin mælist stærst í könnun Gallup, með 24 prósent fylgi, Sjálf­stæðis­flokkurinn með 21,5 prósent og er Fram­sóknar­flokkurinn þriðji stærsti flokkurinn með 17,5 prósent fylgi.

Píratar koma þar á eftir með 13,2 prósent fylgi og svo Sósíal­istar með 6,9 prósent. Við­reisn mælist með 6 prósent í könnun Gallup, Vinstri græn með 4,5 prósent og Flokkur fólksins 3,6 prósent.

Könnun Gallup var gerð dagana 9.-13. maí og tóku 2687 manns þátt. 48,2 prósent þátt­taka var í könnuninni.

Fréttin hefur verið uppfærð.