Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar gagnrýnir harðlega yfirlýsingar Valgerðar Sigurðardóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að rífa eigi húsnæði Fossvogsskóla. Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir niðurstöður mælinga í Fossvogsskóla ekki gefa tilefni til að skoða niðurrif skólahússins.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær telur Valgerður að rífa þurfi húsnæðið þar sem dæmi séu um að nemendur finni enn fyrir einkennum myglu þrátt fyrir framkvæmdirnar við skólann.

„Þetta er afar óábyrgur málflutningur sem ekki er studdur neinum gögnum þeirra sem gerst þekkja stöðuna á húsnæði skólans,“ segir í bókun meirihlutans á fundi skóla- og frístundaráðs sem fram fór í gær. „Reykjavíkurborg hefur lagt mikla vinnu og fjármuni í gagngerar endurbætur á skólahúsnæði og í einu og öllu fylgt fyrirmælum sérfræðinga verkfræðistofunnar Verkís. Borgin hefur varið til þess rúmlega 500 milljónum króna og hefur verið tekist af ábyrgð á við þau dæmi um rakaskemmdir sem komið hafa fram í þessum framkvæmdum.“

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fossvogsskóla var lokað að hluta í mars 2019 í kjölfar sýnatöku og mælinga sem sýndu rakaskemmdir. Húsnæðið var svo aftur tekið í notkun síðasta haust að loknum umfangsmiklum framkvæmdum. Í vor stigu fram foreldrar nemenda sem fundu enn fyrir einkennum. Í sumar var því ráðist í frekari framkvæmdir og sýnatökur. Í gær lýsti foreldri alvarlegum einkennum dóttur sinnar sem stundar nám í skólanum.

Í tilkynningu borgarinnar segir að lokaúttekt Verkís hafi legið fyrir í ágúst, þar hafi ekki verið mælt með frekari framkvæmdum. Næstu skref verða svo ákveðin þegar lokaúttektarskýrsla liggur fyrir. „Við erum að reikna með því að lokaskýrslan geti legið fyrir í lok vikunnar eða strax í byrjun næstu,“ segir Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar.

Umhverfis- og skipulagssvið hefur óskað eftir fundi með skólaráði Fossvogsskóla á næstunni til að fara yfir skýrsluna og niðurstöður frá Náttúrufræðistofnun Íslands á tegundagreiningu sýnanna sem tekin voru í sumar.

Valgerður segir að borgin geti ekki horft fram hjá því að börn veikist í skólanum. „Síðustu tvö ár hafa foreldrar fjölda barna við Fossvogsskóla haft samband við mig út af veikindum barna sinna. Í haust eftir að skóli hófst aftur þá byrjaði ég aftur að heyra frá foreldrum þrátt fyrir allar endurbætur sem hefur verið ráðist í,“ segir Valgerður.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kemur mygla upp í skólahúsnæði í eigu Reykjavíkurborg en ég hef aldrei heyrt aftur í foreldrum barna í öðrum skólum þar sem hefur verið farið í lagfæringar.“